150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hversu lágt er hægt að leggjast? Réttsýnu fólki er misboðið þegar kvótagreifar Samherja misnota jafn herfilega og raun ber vitni aðstöðu sína í hinu bláfátæka Afríkulandi Namibíu. Þar er um að ræða meiri háttar mútur, meintar mútur, og ágóðann af því fela þeir síðan í aflandsfélögum og skattaskjólum. Íslendingar hafa komið að þróunarstarfi í Namibíu og byggt upp traust en því rústuðu þessir kvótagreifar og misnotuðu aðstöðu sína herfilega með því að arðræna bláfátæka þjóð. Afganginn fólu þeir síðan í aflandsfélögum og skattaskjólum víða um heiminn og eftir situr sorg og reiði. Orðið siðfræði er greinilega ekki til í þeirra orðabók. Samherjamenn leituðu á mið hinna fátækustu meðal fátækra og rændu þá auðlindum sínum með meintum mútum. En hversu lágt er hægt að leggjast hér á landi? Birtist spillingin hérlendis í því að árið 2018 þurftu 16.000 heimili, með rúmlega 31.000 einstaklingum, að lifa undir lágtekjumörkum. Eða er það eðlilegt og sjálfsagt að um 15.000 einstaklingar búi við skort og 3.000 búi við grafalvarlegan skort á efnislegum gæðum? Þarna eru þúsundir barna sem búa við verulegan skort á efnislegum gæðum og búa við sárafátækt og það á sama tíma og þeir ríku verða æ ríkari. Nú á eftir verður lokið við atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið. Þar er ríkum sægreifum hampað með lækkun á veiðigjöldum á kostnað þeirra sem búa við verulegan skort á efnislegum gæðum. Skömmin er þessarar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)