150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við ræðum störf þingsins og ég ætla að fjalla um löggjafarhlutverk Alþingis. Þannig stendur á að það er mikil iðn að innleiða hvers kyns Evrópureglur og eins og menn þekkja er ætlast til þess að það sem kallast reglugerð í Evrópu fái lagagildi hér á landi. Spurningin er hvernig það gerist. Fræðimenn eins og til að mynda Davíð Þór Björgvinsson í sinni merku bók fer yfir það að ýmist eru sett lög þess efnis eða gefin eru út stjórnvaldsfyrirmæli, þ.e. reglugerð. En hann tekur skýrt fram að það sé gert því aðeins að reglugerðin hafi fullnægjandi lagastoð.

Ég hef spurt iðnaðarráðherra og fengið skriflegt svar um það við hvaða ráðgjöf ráðherra hafi stuðst við mat á heimildarákvæði raforkulaga, sem er í 45. gr. og er mjög þröngt og afmarkað og fjallar um það að ráðherra hafi heimild til að gefa út reglugerðir um framkvæmd laganna. Í svari ráðherra segir að það sé mat sérfræðinga atvinnuvegaráðuneytisins að hægt sé að innleiða þessar umdeildu reglugerðir 713 og 714 án þess að sérstaka nýja lagastoð þurfi fyrir því.

Þess vegna hef ég spurt ráðherra: Hvaða lagarök, lögskýringarsjónarmið og lögskýringargögn voru lögð til grundvallar þegar metið var að þetta þrönga afmarkaða heimildarákvæði raforkulaga dygði til að veita þessum Evrópureglugerðum lagastoð hér á landi? Ég minni á það, herra forseti, að löggjafarvaldið á Íslandi er (Forseti hringir.) falið í stjórnarskrá Íslands, Alþingi, en ekki sameiginlegu EES-nefndinni og ekki Stjórnarráðinu.