150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Síðustu daga, allt frá því að Samherjahneykslið sprakk í andlitið á okkur, hefur þingheimi, þó að líklega sé rétt að tala sérstaklega um þingmenn stjórnarandstöðunnar, orðið tíðrætt í þingsal og utan hans um mikilvægi þess að þannig sé búið um ákæruvaldið að fólk hafi svigrúm til að sinna því stóra verkefni sem er fram undan. Engin breytingartillaga frá meiri hlutanum skilaði sér inn í 3. umr. þrátt fyrir að alvarleiki málsins hefði nánast verið mataður með teskeið ofan í stjórnarliða síðustu dagana í fjárlagaumræðunni. Hefðinni samkvæmt munu stjórnarliðar líklega fella breytingartillögur frá minnihlutaflokkum á eftir sem lúta að þessu máli. Það er áhugavert, ekki síst í ljósi orða hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur sem sagði, þegar málið bar fyrst á góma, að auðvitað myndi ríkisstjórnin leggja frekari fjárveitingar til rannsóknar á Samherjamálinu ef kallað yrði eftir því. Svo er kallað eftir því á meðan fjárlög voru óafgreidd og ófrágengin.

Ég hef áður lýst því yfir að mér finnst réttarkerfið okkar, rannsakendur og dómstólar, verða að vera fjármagnað til að bregðast við hverju sem á dynur án þess að vera háð aðkomu stjórnmála, velvilja og eftir atvikum öðrum skoðunum. En staðan er eins og hún er og þegar hún er krufin kemur reyndar fleira upp. Við sjáum t.d. að dómar fyrir kynferðisbrot eru að verða vægari eingöngu með vísan til þess hve lengi málin hafa dregist hjá ákæruvaldi og/eða lögreglu. Það stafar af því grundvallarlögmáli að verkefnin eru of mörg og starfsmenn of fáir. Staðan er sú að dómar fyrir brot sem samfélagið hefur skilgreint sem hin allra alvarlegustu eru styttir vegna þess hvernig stjórnvöld búa um þær stofnanir sem fara með þau mál. Þetta er ekki staða sem er sæmandi þjóð sem státar af réttaröryggi. Þetta er ekki staða fyrir þjóð sem er í forystuhlutverki í jafnréttismálum því að það er líka staðreynd að yfirgnæfandi meiri hluti brotaþola í kynferðisbrotamálum eru stúlkur og konur. Við þurfum einfaldlega að gera betur.