Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:40]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við afgreiðum hér næstsíðasta fjárlagafrumvarp þessarar ríkisstjórnar og nú eru bæði tími og þolinmæði á þrotum. Við þessa lokaumræðu reynum við í stjórnarandstöðunni að bæta þetta frumvarp sem fær falleinkunn ansi víða, ekki síst frá verkalýðshreyfingunni og samtökum öryrkja og aldraðra. Við erum hér með tillögu um að skilja engan eftir undir lágmarkslaunum, engan öryrkja og engan eldri borgara. Það ætti að vera hægt í tíunda ríkasta landi í heimi, eða hvað?

Við erum líka með tillögur um að bæta við fjármunum til rannsóknaraðila vegna Samherjamálsins. Í máli sem heimspressan og alþjóðastofnanir fylgjast grannt með verða skilaboðin hins vegar líklega þau að ríkisstjórnin felli slíka tillögu, ekki einu sinni heldur tvisvar. Báðar þessar tillögur væru sjálfsagðar hjá flestum öðrum en þessum þremur stjórnarflokkum. Eina vonin til að ná fram breytingum er því að kjósa aðra flokka en þá sem hér sitja við stjórnvölinn.