150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:42]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í tilefni af umræðu sem spannst hér í þinginu í tengslum við 3. umr. fjárlagafrumvarpsins, um fjárþörf vegna eftirlits- og rannsóknarstofnana á sviði skattamála og saksóknar, er ástæða til að árétta nokkur atriði sem fjármála- og efnahagsráðherra hefur nefnt í því sambandi. Þau atriði lúta að því að enginn þarf að velkjast í vafa um að viðkomandi ráðherrar munu, í samráði við ríkisstjórnina og þingið, gangast fyrir því að tryggja þessum stofnunum nægjanlega fjármögnun til að mæta tímabundnu álagi á þessu ári og því næsta, og jafnvel lengur ef þarf, og að staðið verði að veitingu þeirra fjárheimilda með þeim hætti sem lög um opinber fjármál mæla fyrir um.

Í fyrsta lagi er ástæða til að benda á að einkum er um að ræða aukin verkefni sem voru ófyrirséð en hafa verið að koma í ljós nýverið og eru þess eðlis að mögulegt umfang þeirra liggur ekki nægilega vel fyrir á þessu stigi. Af þeim sökum hafa ekki að svo stöddu verið mótaðar fullnægjandi áætlanir og fjárlagatillögur í samræmi við stefnumótun stjórnvalda á þessu málefnasviði.

Ég vil ítreka það að ríkisstjórnin gaf einnig út yfirlýsingu fyrir viku um aðgerðir til að auka traust á íslensku atvinnulífi þar sem fram kom skýr ásetningur um að fjármögnun þessara eftirlitsstofnana verði tryggð. Við það verður staðið.