Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:51]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við erum komin á lokadag afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2020 og ég vil bara segja og biðja þingheim allan að horfa á heildarmynd þeirrar fjárlagavinnu sem þingið vinnur ár hvert sem hefst með mótun fjármálastefnu sem við endurskoðuðum í vor, er undirbyggð af fjármálaáætlun sem liggur fyrir að vori og síðan fjárlagafrumvarp að hausti sem við erum að samþykkja í dag. Þetta ferli allt saman er að sanna gildi sitt. Þetta ferli sannar gildi sitt með því að við erum að afgreiða hér ábyrg fjárlög þar sem brugðist er við hagsveiflu. Það er mjúk lending í hagkerfinu. Þetta fjárlagafrumvarp og þessi fjárlög hafa fengið þá einkunn frá umsagnaraðilum að vera tímamót í hagstjórn á Íslandi. Ég er kátur í dag.