Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:55]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta eru góð fjárlög sem stuðla að uppbyggingu en kallast um leið á við hagsveifluna með árangursríkum hætti. Ég vil hins vegar nýta tækifærið og ítreka, vegna þess sem komið hefur fram í 3. umr. fjárlaga, að það er algjörlega klárt, og kom fram síðast í máli hæstv. dómsmálaráðherra og hefur áður komið fram í máli hæstv. fjármálaráðherra, að þeim eftirlits- og rannsóknastofnunum sem á komandi misserum munu þurfa að kljást við ýmis verkefni sem nýlega eru komin upp verður tryggt fullt svigrúm til að sinna þeim rannsóknum og því eftirliti með sómasamlegum hætti.

Hæstv. ráðherrar munu að sjálfsögðu fylgja lögum um opinber fjármál og gera Alþingi grein fyrir breyttri ráðstöfun fjárheimilda eða ráðstöfun heimilda úr varasjóði eins og gert er ráð fyrir í lögunum. En það þarf enginn hér inni að efast um að þessum stofnunum verði tryggt fullt svigrúm til að sinna þessum málum með sómasamlegum hætti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)