Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:56]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég kem hér upp vegna orða hæstv. dómsmálaráðherra sem og hæstv. forsætisráðherra sem hafa tekið ákvörðun um að heita því að skammtað verði úr vasa ráðherra ríkisstjórnarinnar, annars vegar hæstv. dómsmálaráðherra og hins vegar hæstv. fjármálaráðherra, til handa þeim rannsóknarstofnunum og ákæruvaldi sem fer með meint efnahagsbrot og skattalagabrot sem nú eru kennd við Samherjaskjölin. Ég verð að segja að mér þykir þetta algerlega óboðlegt með öllu þar sem fjárveitingavaldið er hjá Alþingi en ekki hjá einstaka ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Ég er ekki viss um að ríkisstjórnin átti sig á hvað það lítur illa út fyrir alheimi og fjölmiðlum, erlendum sem innlendum fjölmiðlum, þegar ríkisstjórn Íslands fellir tillögu um nauðsynlegt fjármagn til þessara stofnana af því að ráðherrar í ríkisstjórn, með hæstv. sjávarútvegsráðherra innan borðs, ætli að skammta þessum stofnunum (Forseti hringir.) fjármagn eftir eigin geðþótta. Mér finnst þetta algerlega óboðlegt.