150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:13]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fyrir um tveimur vikum sagði ég hér að kerfislæg linkind gagnvart spillingu einkenndi íslenskt stjórnarfar. Ein birtingarmynd þess er að ekki bara undanfarin ár heldur undanfarna áratugi hefur allt of litlum peningum verið varið í eftirlitsstofnanir á Íslandi. Þetta vita allir. Vissulega hefur verið gert smávegis til að reyna að bæta það, það er rétt, en engan veginn nóg. Við vitum hvað vandamálið er stórt og að það eigi að færa einhverja peninga til í einhverjum málaflokkum til að bæta upp fyrir það í einstaka tilfellum er ekki nóg. Að það skuli vera lausnin sýnir að því er ekki tekið alvarlega, a.m.k. ekki nógu alvarlega, hversu veikar margar af þessum stofnunum eru. Þær þurfa miklu meira fjármagn til að geta sinnt lögboðnu hlutverki sínu vel (Forseti hringir.) og þar af leiðandi eigum við ekki að vera að karpa um hvort lög um opinber fjármál eru brotin eða ekki. Auðvitað eiga þau ekki að vera brotin en í það minnsta ættum við að vera að fjármagna lögboðið hlutverk þessara stofnana. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)