Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:14]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég er ánægð með þetta fjárlagafrumvarp. Ég ætla að byrja á því að þakka fjárlaganefnd fyrir hennar störf í þágu þeirra fjárlaga sem hér eru undir. Það er mikilvægt því að góð efnahagsstjórn skilar því að við getum greitt niður skuldir. Við getum bætt félagslega innviði. Við höfum aldrei lagt eins mikið í loftslags- og umhverfismál, það er gríðarleg uppbygging í heilbrigðismálum. Við erum að leggja fram frumvarp um lengingu á fæðingar- og foreldraorlofi. Við erum að breyta tekjuskattskerfinu sem gagnast þeim sem lægri hafa launin. Það er uppbygging í innviðum ferðaþjónustu. Það er viðbót í kennaramálin, eins og kom fram áðan, í nýsköpun. Þegar við erum í þeirri niðursveiflu sem við okkur blasir erum við að fara í auknar framkvæmdir, m.a. í samgöngumálum og annarri uppbyggingu sem tengist ferðaþjónustunni, að ég tali ekki um þau hjúkrunarheimili og annað slíkt sem hér er verið að byggja.

Þetta eru góð fjárlög sem ég treysti að flestir hér inni styðji. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)