Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:18]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil bara árétta það vegna þeirrar umræðu sem skapast hefur um hugmyndir um beitingu fjárstjórnarvalds og rifja það upp að við höfum í þessari löggjöf miklu rýmri heimildir til fjárstjórnarvalds en við höfum haft áður. Þar er ákveðinn ferill sem verður að fara eftir. Það er sá ferill sem fjárlaganefnd mun halda utan um og ekki gefa nokkurn afslátt af.

Þá vil ég rifja það upp, svo að menn hafi það bak við eyrað sem hérna tala digurbarkalega, að mér finnst, um þessi mál, að það var álitamál fyrir hv. fjárlaganefnd um árið þegar fjármálaráðherra Viðreisnar ákvað á miðju sumri að sækja 4 milljarða í varasjóð. Ríkisstjórninni entist ekki — því miður, eða ég veit ekki hvað ég á að segja — aldur til að taka á því máli [Hlátur í þingsal.] þannig að menn skulu fyrst rýna hvaða verkum þeir hafa staðið að sjálfir áður en þeir fara að hrópa hér að meiri hlutanum að það sé verið að brjóta lög um opinber fjármál. [Kliður í þingsal.]