150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:19]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í þessu fjárlagafrumvarpi er tekist á um hugmyndafræði. Það er hugmyndafræði að framkvæmdarvaldið eigi að vera sett ofar löggjafarvaldinu við svona ákvarðanir. Það er hugmyndafræði sem liggur að baki því að veikja eftirlitsstofnanir. Það er líka hugmyndafræði sem liggur að baki því að styrkja eftirlitsstofnanir.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur um árabil haft þá stefnu leynt og ljóst að draga úr því sem Sjálfstæðismenn kalla eftirlitsiðnaðinn. Það er ekkert alveg að ósekju sem við í stjórnarandstöðunni höfum vantrú á því að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins muni standa við þau orð sín að sjá til þess að eftirlitsstofnanir fái nauðsynlegt fjármagn til þess að starfa.

Það er líka hugmyndafræði sem liggur að baki þeirri tillögu að tryggja okkar fátækasta fólki lágmarkslaun og það er líka hugmyndafræði (Forseti hringir.) að fella hana.