Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:22]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eftir að hafa hlustað á miklar varnarræður frá þingmönnum stjórnarflokkanna er einfaldlega gott að segja frá þessu opinbera leyndarmáli og þeirri uppákomu sem varð hér í gærkvöldi. Það vita allir að það var panik hjá ríkisstjórnarflokkunum og hæstv. forsætisráðherra reyndi einmitt að koma til móts við óskir og beiðni héraðssaksóknara í gær um aukin fjárframlög. En hvað gerðist? Það er komið undanhald í liðið og það þarf auðvitað að ramma alla liðsmenn inn í eitt og sama formið. Það þarf að hafa aga á mannskapnum. Þetta eru ekkert annað en útúrsnúningar um aðferðafræði af hálfu ríkisstjórnarflokkanna. Það er alveg ljóst, ekki nema forsætisráðherra leiðrétti það, að viljinn var allur annar hér í gær. Menn fara að karpa hér í fjármálum og við greiðum atkvæði á eftir um hvernig þetta verður. Það sem þessi umræða hér í dag segir mér fyrst og fremst er að á stóru verkefnunum sem eru fram undan, prinsippverkefnunum sem þarf að taka á í íslensku samfélagi, verður ekki tekið af því að það er ríkisstjórnin sem er undir, ekki samfélagið. (Gripið fram í: Lýðskrum.)