150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:41]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram er Samherjamálið flókið milliríkjamál, mál sem fylgst er mjög vel með úti í hinum stóra heimi og alþjóðlegar stofnanir gera það sömuleiðis. Nú liggur algjörlega fyrir að embætti héraðssaksóknara hefur beinlínis óskað eftir frekari fjármunum. Þá liggur einnig fyrir að ekki er króna í varasjóði eyrnamerkt héraðssaksóknara og það sem meira er, í þeim fjárlögum sem hér er verið að afgreiða er beinlínis raunlækkun til embættis héraðssaksóknara þannig að fjárframlögin ná ekki einu sinni að halda í við verðbólgu. Hér erum við því að staðfesta minni peninga til héraðssaksóknara fyrir 2020 en er 2019.

Því til viðbótar má spyrja hvort fólki finnist eðlilegt að formaður Sjálfstæðisflokksins, einn manna af öllum, ákveði hvort, hve mikið og hverjir fái fjármuni til að rannsaka Samherjamálið. Það gerist þegar varasjóðir ráðuneyta eru nýttir en ekki fjárlög.

Þessi sjálfsagða tillaga myndi fá brautargengi í öllum öðrum þjóðþingum en ekki hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Það segir sína sögu, sögu sem nær langt út fyrir landsteinana.

Ég segi því já.