150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:46]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég hef lýst því áður og ég er ekki ein um þá skoðun að okkar mikilvægu stofnanir og réttarkerfið allt eigi að vera fjármagnað þannig að það geti klárað mál eins og við erum að ræða hér, Samherjamálið svokallaða, án þess að vera háð aðkomu stjórnmálanna, velvilja og eftir atvikum öðrum tilfinningum sem upp koma.

Mig langar til að bregðast við orðum hv. þm. Birgis Ármannssonar þar sem hann talaði um að það væri ástæðulaust að hafa áhyggjur af málinu. Ég tel þvert á móti fulla ástæðu til þess vegna þess að það myndi létta áhyggjum mínum af því að staðan er eins og hún er ef við værum hér, Alþingi, að taka ákvörðun um þetta en ekki að það væru einstakra stjórnmálamenn sem gerðu það utan þessa salar. Það getur aukið á ákveðið ósjálfstæði þeirra stofnana sem um ræðir sem er algjörlega óásættanlegt.

Hér er tækifærið og ég vísa aftur í orð hv. þingmanns þar sem hann talar um það sem lýðskrum að koma með þessa tillögu fram á þessum tíma. Ég veit ekki hvernig ég á að svara því öðruvísi en svo að við skulum bara reyna að passa okkur öll hérna að næsta stórmál komi upp tímanlega — eða hvað? — (Forseti hringir.) einhverjum dögum fyrr. Hvað eiga þessi skilaboð eiginlega að þýða? Við erum að bregðast við máli sem kemur upp og hér eru aðstæður í þingsal til að klára það mál. Ég árétta að það er skömminni skárra að þingið sé með puttana í þessu en einstaka ráðherrar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Ég segi já.