Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Nú erum við að afgreiða fjárlög fyrir árið 2020. Þá eigum við að taka afstöðu til þess kostnaðar sem við vitum og höfum áætlað að muni lenda á árinu 2020. Hæstv. dómsmálaráðherra kom í pontu áðan og þuldi upp úr lögum um opinber fjármál og allt um það hvernig eigi að bregðast við ef eitthvað óvænt kæmi upp á á árinu 2020. Ég legg til, herra forseti, að hæstv. forsætisráðherra standi fyrir samlestri á lögum um opinber fjármál við ríkisstjórnarborðið því að greinilega er ekki vanþörf á því. Við vitum nákvæmlega hver beiðni héraðssaksóknara er. Hann hefur sagt hvað hann þurfi marga starfsmenn til að ljúka þeim verkefnum. Nú þegar liggja 100 afgreidd mál á borði héraðssaksóknara. Beiðni embættisins er hunsuð og vísað er í varasjóð fyrir málaflokkinn (Forseti hringir.) sem er ekki einu sinni til. Hvað eru hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarþingmenn að gera með þessu ráðslagi? Þau eru að draga tennurnar úr embættinu, þau eru að draga tennurnar úr rannsóknum á Samherjaskjölunum.

Ég segi já.