150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:02]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Mig langar að taka undir þetta. Hér var sett á kvótakerfi sem að mörgu leyti hefur verið farsælt vegna þess að meginmarkmiðið var að tryggja sjálfbærni. Svo var bætt við að hægt yrði að framselja kvóta til að auka skilvirkni og slíkt. Á endanum hefur þetta haft ýmsar slæmar afleiðingar. Sjálfbærnisjónarmiðið virðist þó hafa verið sæmilega gott en það sem hefur ekki verið tryggt er eftirlit með því að ekkert brottkast sé, þ.e. að tryggja á endanum sjálfbærnisjónarmiðið.

Í vor samþykkti meiri hlutinn fiskeldi og þar var öllu fögru lofað um að Fiskistofa og eftirlitsaðilar fengju það fjármagn sem þeir þyrftu til að passa upp á það og að bestu hugsanlegu tæki yrðu til staðar og fjármagn til að passa upp á að náttúran myndi njóta vafans. Þetta ræddum við í vor en eins og kemur fram í máli hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur er nú verið að auka framlögin minna en verðbólgan er, verðbólgan étur upp meira, (Forseti hringir.) þannig að það er minnkun á raunframlögum. Við vissum að sjálfsögðu, eins og við nefndum í vor, að menn færu ekki að auka eftirlitið. Þetta er staðan og að sjálfsögðu hræða sporin. (Forseti hringir.) Þess vegna treystum við okkur ekki til að auka eftirlit nema þið nauðsynlega þurfið en þið reynið að komast upp með að gera það ekki.