Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:18]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Ég ætla að greiða atkvæði með þessu af því að vandinn er gríðarlega uppsafnaður. Það er uppsafnaður vandi að liðskiptaaðgerðirnar hafi ekki komist á og það hefur verið skortur á bæði læknum og þessari þjónustu á Landspítalanum af því að opinbera kerfið hefur verið svelt. Þetta er vandamál sem við stöndum frammi fyrir. Fólk þarf að komast sem fyrst í liðskiptaaðgerðir til að þurfa ekki að haltra og verða jafnvel að öryrkjum. Þess vegna segi ég já, en það verður að taka á því. Þetta hefur ítrekað verið gert, opinbera kerfið hefur verið svelt, eins og við sáum í skýrslu McKinseys um Landspítalann, og aukið við sérfræðiþjónustuna og sérfræðisamningana til að einkavæða þetta í gegnum fjárlög. Það hefur leynt og ljóst verið stefnan síðustu áratugina til að skapa nákvæmlega svona kringumstæður, að sjúklingarnir þjáist og þá verði að setja peningana í einkaframtakið.

Það er hins vegar mjög varasamt að byggja upp mjög stóran iðnað, gróðaiðnað í heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisþjónusta grundvallast, ólíkt menntun og öðrum iðnaði, (Forseti hringir.) svolítið mikið á því sama og fangelsi. Við viljum fækka föngum og við viljum fækka sjúklingum. Um leið og við setjum gróðasjónarmið inn erum við að búa til ákveðna hættu.

Já, í þessu tilfelli, vegna vandans, en það þarf að laga þetta. Það þarf að auka fjármagn í opinbera kerfið.