Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:24]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Á dauða mínum átti ég von en ekki því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins byrjuðu að afneita einkaframtakinu. Eftir stendur að það er veruleiki, ekki bara nokkurra tuga einstaklinga úti í samfélaginu heldur þúsunda manna, að vera á biðlistum eftir liðskiptaaðgerðum. Hvert er þá hlutverk okkar sem hér erum? Það er að tryggja nægilegt fjármagn til að hægt sé að fara strax í framkvæmdir, fara strax í aðgerðir fyrir fólkið til að hjálpa því, lina þjáningar og auka lífsgæði fólks. Ríkisstjórnin er pikkföst í kreddu sinni og hugmyndafræði sem Sjálfstæðisflokkurinn styður svona eindregið en ég styð og segi já við þessari tillögu til að hjálpa ríkisstjórninni og Sjúkratryggingum við að semja, í þessu tilfelli við einkaaðila. Það er líka hægt að semja við Norðlendinga og fleiri sjúkrahús. Það þarf að fara í það verkefni að eyða þessum biðlistum.

Það er okkar stóra verkefni og þess vegna segi ég já. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)