150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:26]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég vorkenni þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem hafa gengið í björg öfgavinstrisins í heilbrigðismálum og koma hér upp og hiksta upp úr sér einhverjum vandræðalegum skýringum á því að þeir geti ekki stutt að það sé gengið á biðlista þar sem þúsund manns bíða kvaldir heima hjá sér og eru úr leik í þjóðfélaginu. Ég hefði ekki trúað því fyrr en ég sé það núna að svo margir í þessum sal séu tilbúnir að framlengja þjáningar þessa hóps.

Það er vont að vera svona aftarlega í stafrófinu því að kannski hefði þessi brýning mín komið betur til gagns ef ég hefði sagt hana fyrr. Að sjálfsögðu segi ég já við þessari tillögu. Hún er hvorki popúlísk né af öðrum kenndum, hún er gerð til þess einfaldlega að lina þjáningar viss hóps manna sem hefur beðið allt of lengi á biðlistum út af trúarsetningum (Forseti hringir.) öfgavinstrimanna í heilbrigðisráðuneytinu.

Ég segi já.