150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Frá hruni hafa öryrkjar og eldri borgarar setið eftir. Þeir hafa setið eftir vegna þess að í lögum segir að þeir eigi að fylgja þróun í samfélaginu en í hverjum einustu fjárlögum er sagt: Nei, ekki í þetta skiptið. Öryrkjar og eldri borgarar, öryrkjar í þessu tilfelli í tillögunni sem við erum að greiða atkvæði um núna, eiga mikið inni hjá okkur. Hvað kostar þetta? Jú, þetta kostar 13 milljarða. Hvað kostar það samfélagið, skattundanskot einstaklinga og fyrirtækja sem fara í aflandsfélög? Bara í skattaskjólin fara 10 milljarðar. Það næstum því dekkar það að við færum öryrkja þangað sem þeir eiga heima, að lifa með reisn. Við getum takmarkað það sem fer í skattaskjól en það þýðir að fara þarf í alvöruskattrannsóknir. Ef það væri forgangsraðað þannig væri hægt, í staðinn fyrir að þessir peningar fari til þeirra (Forseti hringir.) sem svíkja undan skatti og setja þá í skattaskjól, að færa þá til (Forseti hringir.) þeirra í samfélaginu sem mest þurfa á því að halda, öryrkja í þessu tilfelli.