Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:45]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum að tala um þjóðfélagshópa sem hafa setið eftir frá hruni, sem var lofað að laun þeirra yrðu leiðrétt eins og allra annarra. Laun allra annarra hafa verið leiðrétt, þar á meðal þeirra sem sitja í þessum sal. Það er tæplega 30% kjaragliðnun og svarið við því sem kallað er eftir er: Það er ekki til fjármagn fyrir þessu. Þetta segja jafnvel þeir sem hafa talað um að við ættum ekki að búa til einhvern þjóðarsjóð af því við eigum þjóðarsjóð sem heitir ríkissjóður. Við erum að tala um 110 milljarða í væntanlegar arðgreiðslur út úr sameiginlegri eign okkar sem heitir Landsvirkjun. Getum við ekki forgangsraðað fjármunum nákvæmlega þannig? Getum við ekki gengið á undan með góðu fordæmi og sýnt að við meinum það sem við segjum og segjum það sem við meinum þegar við lofum þessum þjóðfélagshópum því að þeir verði ekki skildir eftir síknt og heilagt og ævinlega? Það er núna sem Alþingi Íslendinga hefur möguleika á því að standa við stóru orðin. Það liggur við að maður biðji um nafnakall, mér skilst bara að það sé orðið of seint, en ef það hefði einhvern tíma átt að hafa nafnakall er það núna.

Ég segi já.