150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:51]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Sama sagan endurtekur sig. Enn eitt árið detta þingmenn Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í skotgrafir gamaldags vinnubragða og fella allar tillögur sem stjórnarandstaðan leggur til. Allar tillögurnar eru felldar.

Herra forseti. Stóð ekki til að innleiða ný vinnubrögð og stóð ekki til að valdefla Alþingi? Átti það bara við þingflokksherbergin hérna niðri í gömlu byggingunni?

Ég vil sömuleiðis rifja það upp, herra forseti, að 47% af þjóðinni kaus ekki þessa þrjá flokka sem núna verma ráðherrabekkinn. Þessi vinnubrögð hér í dag gera ótrúlega lítið úr umboði tæplega helmings þjóðarinnar.

Herra forseti. Svona er pólitíkin í dag. Hún er sú sama og pólitík gærdagsins en vonandi verður þetta ekki pólitík framtíðarinnar.