150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

leiga skráningarskyldra ökutækja.

386. mál
[18:03]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja. Í frumvarpinu er lagt til að Samgöngustofu verði veitt heimild til að leggja stjórnvaldssektir á leyfishafa ökutækjaleigu sem hefur orðið uppvís að því að breyta kílómetrastöðu skráningarskylds ökutækis sem skráð er í notkunarflokki ökutækjaleigu.

Á Íslandi eru skráðar 108 ökutækjaleigur. Sú tölfræði á sér engan samanburð sé miðað við íbúafjölda annarra ríkja. Án ökutækjaleiga hefðum við átt í verulegum vandræðum með að sinna öllum þeim fjölda ferðamanna sem hingað hefur streymt frá því að ferðaþjónustan byrjaði að vaxa sem atvinnugrein.

Núgildandi lög um leigu skráningarskyldra ökutækja tóku gildi sumarið 2015 en tildrög laganna mátti rekja til þessarar stöðugu fjölgunar ferðamanna. Eftir gildistöku laganna hélt ferðamönnum áfram að fjölga og milli áranna 2015 og 2016 var fjölgunin tæp 40%. Þá voru brottfarir ferðamanna um Keflavíkurflugvöll 2,3 milljónir árið 2018, þ.e. 120.000 fleiri en árið 2017. Þessi gríðarlega fjölgun erlendra ferðamanna hefur leitt til aukinnar eftirspurnar eftir bílaleigubílum og mikils vaxtar í starfsemi ökutækjaleiga. Vöxturinn birtist m.a. í því að hlutdeild ökutækjaleiga af nýskráðum bifreiðum hefur aukist verulega en undanfarin átta ár hefur hlutdeildin verið 40%. Rétt er að geta þess að í dag er fjöldi skráðra bílaleigubíla hérlendis tæplega 25.000. Þá er starfsemi ökutækjaleiga fjölbreyttari en áður sem má m.a. sjá í auknu framboði bílaleigubíla í hæsta og lægsta verðflokki sem og framboði á öðrum skráningarskyldum ökutækjum, svo sem fjórhjólum og vélsleðum.

Eins og ég kom inn á var núgildandi lögum ætlað að mæta þeim áskorunum sem fylgdi stöðugri fjölgun erlendra ferðamanna til landsins. Lögin tóku mið af breyttu rekstrarumhverfi, styrktu lagaramma um starfsemi ökutækjaleiga og komu til móts við þróun í greininni. Auk þess skerptu lögin á réttindum og skyldum leigusala og leigutaka.

Samkvæmt lögunum fer Samgöngustofu með eftirlit með því að lögunum sé fylgt en frá gildistöku þeirra hefur Samgöngustofa aldrei beitt þeim viðurlagaúrræðum sem lögin heimila. Hins vegar veitti Samgöngustofa ökutækjaleigu nýlega viðvörun um fyrirhugaða niðurfellingu á starfsleyfi vegna brots sem fólst í því að færa niður kílómetrastöðu a.m.k. 140 ökutækja sem skráð voru í notkunarflokki ökutækjaleigu. Í kjölfar viðvörunar Samgöngustofu fylgdi fjölmiðlaumfjöllun sem fór sennilega ekki fram hjá mörgum.

Niðurfærsla kílómetrastöðu ökutækis er þekkt háttsemi. Hins vegar er háttsemin ekki eins þekkt þegar kemur að niðurfærslu heils bílaflota sem skráður er í notkun í flokki ökutækjaleigu. Í skýrslu Evrópusambandsins frá nóvember 2017 er greint frá tölfræðilegum upplýsingum sem varpa ljósi á umfang niðurfærslu kílómetrastöðu ökutækja í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Í skýrslunni er áætlað að 5–12% notaðra ökutækja innan aðildarríkja sambandsins gefi ranga kílómetrastöðu á akstursmæli. Í skýrslunni er enn fremur fjallað um að tæki sem notuð eru til að breyta kílómetrastöðu ökutækis séu aðgengileg og fáanleg fyrir lágar fjárhæðir í verslunum og auðvelt að stunda háttsemina. Öll skýrslan miðast við notuð ökutæki og hvergi er minnst á vandamál í tengslum við bílaleigur sérstaklega.

Virðulegur forseti. Eins og ég minntist á eru tæplega 25.000 bílaleigubílar skráðir í landinu og 108 ökutækjaleigur. Í ljósi þess og viðvörunar Samgöngustofu í kjölfar brots tiltekinnar ökutækjaleigu er brýnt að taka á þessari brotlegu háttsemi með skýru banni að viðlögðum stjórnvaldssektum, ekki eingöngu vegna þess að niðurfærsla kílómetrastöðu felur í sér villandi viðskiptahætti og gefur ranga ásýnd af ökutæki og ekki eingöngu vegna þess að slík brot gefa ranga ásýnd af rekstri leyfishafa í þeim tilgangi að leiða fram fjárhagslegan hagnað heldur einnig og ekki síst vegna þess að háttsemin getur auðveldlega komið í veg fyrir að eigandi eða umráðamaður ökutækis geti framfylgt reglubundnu viðhaldi öryggisbúnaðar og nauðsynlegum viðgerðum í tæka tíð. Þessi háttsemi getur því auðveldlega haft áhrif á öryggi í akstri sem er sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að leigutakar aka oft hundruð kílómetra á dag í aðstæðum sem þeir eru óvanir.

Í þessu samhengi má benda á að samkvæmt reglugerð um skoðun ökutækja fer fyrsta lögbundna aðalskoðun nýskráðs ökutækis fram fjórum árum eftir nýskráningu og á tveggja ára fresti eftir það. Því er ekki óalgengt að bílaleigubílar séu eknir þúsundir kílómetra án skoðunar. Það liggur líka fyrir að nýleg tækni gerir einstaklingum kleift að breyta kílómetrastöðu tuga og hundraða ökutækja án mikillar fyrirhafnar.

Virðulegur forseti. Fyrrnefnd viðvörun Samgöngustofu var send í samræmi við 11. gr. núgildandi laga sem kveður á um þá skyldu Samgöngustofu að senda leyfishafa skriflega viðvörun og veita hæfilegan frest til úrbóta á annmörkum áður en til niðurfellingar starfsleyfis kemur. Þessi skylda 11. gr. laganna um að veita viðvörun og frest til úrbóta áður en til niðurfellingar kemur er í samræmi við sjónarmið um alvarleika þess að fella niður leyfi en niðurfelling varðar atvinnurekstur fólks sem nýtur verndar eignarréttar- og atvinnufrelsisákvæða stjórnarskrár.

Markmiðið með frumvarpinu er að koma í veg fyrir brot sem felast í því að færa niður kílómetrastöðu ökutækis. Vægasta leiðin að því markmiði er að færa brotið undir stjórnvaldssektarákvæði 13. gr. laganna. Stjórnvaldssektir eru skilvirk viðurlagaúrræði og hægt er að beita þeim án undanfarandi skriflegrar viðvörunar til leyfishafa um að láta af hinni brotlegu háttsemi. Verði frumvarpið að lögum getur Samgöngustofa beitt heimild til niðurfellingar starfsleyfis í kjölfar stjórnvaldssektar verði leyfishafi uppvís að niðurfærslu kílómetrastöðu eftir að sekt hefur verið lögð á hann.

Frumvarpið kallar hvorki á breytingar á hegningarlögum né öðrum lögum og hefur verið unnið í góðu samráði við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Samgöngustofu.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.