Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

viðurkenning á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi.

389. mál
[18:10]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér verður mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010. Lög nr. 26/2010 voru samþykkt 31. mars 2010 og fólu í sér innleiðingu tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, frá 7. september 2005. Tilskipunin leggur grunn að rétti fagmenntaðra einstaklinga til að flytjast milli landa á Evrópska efnahagssvæðinu og taka upp störf í krafti þeirrar menntunar sem þeir hafa aflað sér. Um leið geta þeir notað tækifærið og réttindi sem felast í skuldbindingum aðildarríkja til að viðurkenna faglega menntun óháð því hvar námið er stundað. Einstaklingar sem menntað hafa sig til tiltekinna starfa hér á landi, t.d. í heilbrigðisgeiranum, iðngreinum eða uppeldis- og umönnunargreinum, geta farið til annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu og starfað þar á grundvelli náms sem er stundað á Íslandi.

Tilskipun 2005/36 var breytt með nýrri tilskipun nr. 2013/55/ESB sem tekin var inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2017. Fyrirliggjandi frumvarpi er ætlað að leiða í lög ákvæði þessarar tilskipunar en í henni felast ýmis nýmæli og eru þau þessi helst:

1. EES-borgarar geta sótt um evrópskt fagskírteini til þess að stunda starf í öðru EES-ríki og á það bæði við um þegar umsækjandi tekur upp varanlega búsetu í gistiríki eða óskar eftir að veita þjónustu um skemmri tíma. Hér er á ferðinni rafrænt skírteini sem staðfestir menntun umsækjanda og rétt hans til tiltekinna starfa í heimalandinu. Með fagskírteininu standa vonir til að hraða megi málsmeðferð með viðurkenningu faglegrar menntunar og gera afgreiðsluna skilvirkari.

2. Samtök tiltekinna starfsstétta eða starfsgreina geta komið sér saman um sameiginlegar kröfur eða sameiginlegt próf er reynir á þekkingu, leikni og í hæfni sem krafist er til iðkunar tiltekins starfs. Samtök fagstétta sem hlut eiga að máli geta lagt fram tillögu um slíkar menntunarkröfur til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem staðfestir þær og gefur út með reglugerð.

3. Ef aðgengi að lögvernduðu starfi er háð því að viðkomandi hafi lokið tilskildu vinnustaðanámi verður aðildarríkjum skylt að viðurkenna starfsþjálfun sem aflað hefur verið í öðru EES-ríki. Þetta ákvæði tryggir að nemar sem kjósa að taka hluta af starfsþjálfun sinni í öðru landi á grundvelli menntasamstarfs innan Evrópska efnahagssvæðisins fái þjálfunina formlega viðurkennda sem hluta af náminu.

Fleiri atriði mætti nefna hér sem fjallað er um í frumvarpinu, svo sem um miðlun upplýsinga til innflytjenda varðandi þau störf sem njóta lögverndunar hér á landi og skoðun á skilyrðum lögverndunar starfsgreina. Frumvarp það sem hér er flutt er mikið heillaskref fyrir íslenskt atvinnulíf og fagfólk í lögvernduðum störfum. Umræddar lagabreytingar munu einfalda og hraða afgreiðslu mála sem tengjast viðurkenningu starfsréttinda og stuðla þannig að auknum sveigjanleika og fleiri tækifærum. Áfram eru gerðar kröfur um menntun og hæfi, t.d. fyrir helstu heilbrigðisstéttir, en það er mikill akkur í því að þessi viðmið séu betur samræmd milli landa.

Frumvarpið á sér nokkuð langan aðdraganda, var fyrst sett í samráð í febrúar 2016. Fjölmargir aðilar veittu umsagnir um það og komu fleiri að vinnu við útfærslu þess og þeirra reglugerða sem settar verða í framhaldinu, enda tekur það til málefna sem varða mörg ráðuneyti, fjölmargar stofnanir og samtök hagsmunaaðila á vinnumarkaði. Eru þeim öllum færðar bestu þakkir fyrir áhugann og vinnu við að gera frumvarpið sem best úr garði.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.