150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

staða fátækra.

[10:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér á landi voru árið 2018 um 16.000 heimili með rúmlega 31.000 einstaklingum sem lifðu undir lágmarkstekjum. Er það eðlilegt og sjálfsagt að 15.000 einstaklingar búi við skort og 3.000 við grafalvarlegan skort á efnislegum gæðum? Þarna eru þúsundir barna sem búa við verulegan skort á efnislegum gæðum, búa við ekkert annað en sárafátækt — og það á sama tíma og þeir ríku verða ríkari og ríkari. Í þessum hópi er fólk sem orðið hefur fyrir búsetuskerðingum. Nú skilst mér að það eigi ekki að leiðrétta það fyrr en eftir tvö ár. Er það rétt, hæstv. ráðherra? Hvað er verið að gera fyrir þennan hóp einstaklinga sem búa við að vera langt undir lágmarkstekjum og þola varanlegan skort?

[Kliður í þingsal.] Síðan er annar hópur sem ég vil fá upplýsingar um hjá hæstv. ráðherra um hvers vegna lendi í þeirri undarlegu aðstöðu að vera eini hópurinn sem fær skertan jóla- og orlofsbónus. Eini hópurinn sem fær þetta skert. Það er búið að skerða þennan hóp allt árið, eini hópurinn sem stendur þarna út af og fær líka skertan jólabónus og orlofsbónus. Ég spyr: Hvað í ósköpunum gerði þessi hópur af sér til þess að eiga það skilið að vera eini hópurinn sem er tekinn út úr dæminu og fær ekki að upplifa að fá nákvæmlega sama jólabónus og allir aðrir, óskertan, hópur öryrkja og eldri borgara. Við vitum að þetta er lítill jólabónus, litlar orlofsbætur, helmingi minni en hjá atvinnulausum, fjórum eða fimm sinnum minni en hjá okkur. Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum þarf að skerða þessa hungurlús?

(Forseti (GBr): Forseti biður um hljóð í hliðarsalnum.)