150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

stofnun dótturfélags RÚV.

[11:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það er rétt að Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu á dögunum þar sem var farið yfir RÚV og m.a. fjallað um dótturfélagið. Það er rétt að það á að setja á laggirnar dótturfélag samkvæmt lögum og það er ekki valkvætt. Það kemur einnig fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, á bls. 21, að óhagræðið sem ýmsir hafa talið af því að setja á laggirnar dótturfélag telur Ríkisendurskoðun ekki fyrir hendi. Þess vegna var ekki verið að fresta þeirri gildistöku. Ég var ekki hrifin af allri þeirri frestunaráráttu sem virðist hafa einkennt þetta mál á sínum tíma og þess vegna tók ég af allan vafa um að það ætti að setja á dótturfélag. Mér finnst brýnt að setja á dótturfélag vegna þess að ég vil auka allt gagnsæi um allt sem við erum að gera varðandi fjölmiðlamarkaðinn. Þess vegna tel ég brýnt núna og stjórn RÚV hefur sagt að þeir muni setja á laggirnar dótturfélagið og hefur nú þegar hafist handa við að gera það og það er mjög gott.

Varðandi önnur fjölmiðlamál er það eins og alls staðar mjög brýnt að fara eftir kjarasamningum. Það er ekki valkvætt að fara eftir lögum og ráðherrann sem stendur hér er að sjálfsögðu sammála því. Við verðum líka að átta okkur á því að fjölmiðlamarkaðurinn er að breytast mjög hratt, ekki bara á Íslandi heldur alls staðar. Þess vegna þurfum við að hlusta á og taka mið af þeim breytingum og miða að því að rekstrarumhverfi fjölmiðla, hvort sem það er opinber fjölmiðill eða einkarekinn, geti verið í samkeppni við aðra og því þarf að styrkja umgjörðina. Það er einmitt verið að vinna að því núna.