150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lyfjalög.

390. mál
[11:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp til lyfjalaga. Á bls. 56 í þessum þykka bæklingi er talað um hámarksþak á greiðslu lyfja, 62.000 kr. fyrir fullorðna, 41.000 kr. fyrir börn, ungmenni, elli- og örorkulífeyrisþega. Núna hefur ótrúlegur fjöldi eldri borgara haft samband við mig og bent mér á það að þeir hafi hreinlega ekki efni á að leysa út lyfin sín og óttast eiginlega að fara til læknis yfir höfuð upp á það að þurfa að lenda í því að vera ávísað lyf og að þeir hafi ekki efni á að leysa það út. Annað sem hefur komið upp á er að hjá hjónum gerist það að byrjun nýs lyfjatímabils lendir á sama mánuði hjá þeim báðum þannig að kostnaðurinn verður gígantískur. Núna síðast benti einstaklingur mér á að í byrjun desember byrjaði nýtt tímabil hjá báðum og sýndi mér fram á að þeirra kostnaður yrði alveg gígantískur.

Ég vil spyrja ráðherra: Getur þetta fólk leitað eitthvert? Er hægt að gera eitthvað fyrir þá einstaklinga sem eru í slíkri aðstöðu? Ég hef auðvitað áhyggjur af viðkomandi einstaklingum sem þurfa nauðsynlega á lyfjum sínum að halda og leysa þau ekki út og hvað skeður þá? Verða þau þá fyrir skaða vegna þess að þau fá ekki sín lyf og er það ásættanlegt í okkar landi að sú staða sé uppi?