150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lóðagjöld á bújörðum og skattalegir hvatar til að halda jörðum í ábúð.

[13:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hingað og ræða við mig um lóðagjaldamál. Fasteignir hafa verið skattlagðar á Íslandi frá því að tíundarlög voru sett á Alþingi árið 1096. Síðan þá hafa landeignir verið verðmetnar og skattlagðar. Í dag eru fasteignagjöld mikilvægur tekjustofn fyrir sveitarfélögin en þessi skattheimta hefur sætt gagnrýni fyrir að vera óhagkvæm. Það er hægt að taka undir það, fasteignamat tekur til bæði verðmætis þeirra bygginga sem á landinu eru ásamt lóðamati. Að mínu mati ætti gjaldstofninn að vera lóðamatið eða jarðamatið eitt og sér. Það er vegna þess að það er landið sjálft sem skapar rentuna.

Hagfræðingar hafa bent á að það sé mun skilvirkara að skattleggja landið sjálft en ekki byggingarnar sem eru á landinu vegna þess að slík skattheimta hefur ekki áhrif á framboð á landi. Það er fasti. Núverandi fyrirkomulag leggst að stærstum hluta á þá fjárfestingu sem eigandi landsvæðis ræðst í, þ.e. á byggingarnar. Mikill kostur væri að skattleggja landsvæði beint þar sem þá eru hvatar fyrir því að þétta byggð í stað þess að dreifa henni. Þá er einnig ótvíræður kostur að verið er að skattleggja rentuna af landinu í stað fjárfestinga. Ein lóð er verðmætari en önnur vegna staðsetningar hennar, eins og við þekkjum, vegna þess að samfélagið hefur fjárfest í innviðum í nágrenninu. Til dæmis held ég að við getum verið sammála um að það er ekkert annað en renta ef lóðaverð hjá íbúa hækkar vegna þess að ríki og borg ráðast í uppbyggingu borgarlínu. Það er skattstofninn sem á að skattleggja, ekki fjárfesting í íbúðar- eða atvinnuhúsnæði. Það er renta af þessu tagi sem leiðir til ójöfnuðar og er ekki hagkvæm fyrir samfélög, sérstaklega ekki ef eignir safnast upp á fárra hendur. Vel útfærðar umbætur á þessu kerfi myndu leiða til aukinnar velferðar fyrir samfélagið og um það virðast líka hagfræðingar vera sammála.

Augljóst er að ráðast þarf í greiningu á áhrifunum, hvernig dreifing byrðanna myndi breytast og þess háttar. Ég tel að með skynsamlegri útfærslu yrði byrðunum skipt jafnar en það er athyglisvert að skoða tekjusagan.is. Þar kemur fram hversu mun þyngri skattur fasteignagjöld eru fyrir tekjulágt fólk en tekjuhátt, en miðað við árið 2017 greiðir lægsta tekjutíund 16.000 kr. á mánuði í fasteignagjöld með 400.000 kr. í atvinnutekjur en efsta tekjutíundin með sex sinnum hærri atvinnutekjur greiðir 24.000 kr. á mánuði.

Gallinn við þetta er að gögn um kaup og sölu á jörðum eru ekki skráð í opinbera gagnagrunna og því ekki hægt að reikna út markaðsverð á jarðir með sama hætti og lóðaverð er reiknað út. Úr því þarf að bæta og höfum við lagt fram þingmál um þau mál.

Núverandi kerfi er ófullnægjandi eins og sýnt var í fréttaskýringaþættinum Kveik nýlega. Það virðist vera erfitt að komast að því hverjir eru raunverulegir eigendur jarða. Jarðir sem keyptar voru fyrir hundruð milljóna eru metnar á nokkur hundruð þúsund í fasteignaskrá. Einn aðili á nú u.þ.b. 1,5% af Íslandi. Ég tel mikilvægt að hömlur verði settar á jarðakaup en þá tel ég einnig nauðsynlegt að það séu efnahagslegir hvatar gegn tilgangslausri jarðasöfnun, eins og virðist t.d. eiga sér stað í mínu kjördæmi. Ég tel að með því að bæta gagnasöfnun og reikna markaðsverð á jarðir mætti einnig hugsa sér að búa til hagræna hvata gegn því að safna bújörðum. Inn í þetta markaðsverð yrðu t.d. reiknuð hlunnindi af laxveiðum. Það yrði gert þannig að sveitarfélögunum væri færð heimild til að leggja lægri lóðagjöld á jarðir sem yrðu skilgreindar sem landbúnaðarland í deiliskipulagi sveitarfélaga en þar sem enginn landbúnaður á sér stað. Þannig yrði fjárhagslegur hvati gegn því að safna til sín jörðum og taka þær úr ábúð.

Virðulegi forseti. Það verður athyglisvert að heyra hvað samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þykir um þessa hugmynd því að þetta tengist líka þeirri umræðu sem við höfum átt hér. Við bíðum eftir frumvarpi um uppkaup á jörðum og ég held að þetta geti verið einn af þeim stóru hvötum sem geta hjálpað til við að sporna við því ástandi sem við höfum séð, því miður, allt of lengi núna.