150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lóðagjöld á bújörðum og skattalegir hvatar til að halda jörðum í ábúð.

[13:37]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að óska eftir sérstakri umræðu um lóðagjöld á bújörðum og skattalega hvata til að halda jörðum í ábúð. Ég mun leitast við að svara hvort hægt sé að breyta skattlagningu fasteigna og húsnæðis á þann hátt að áætlað lóðaverð verði andlag skattsins í stað fasteignamats þeirra bygginga sem þar standa. Hv. þingmaður spyr hverjir séu kostir og gallar á því að taka upp slíkt fyrirkomulag. Einnig er spurt hvort breyta megi skattlagningu landsvæða af landbúnaðarlandi og gefa sveitarfélögum heimild til álagningar hærri gjaldprósentu á jörðum sem skipulagðar eru sem landbúnaðarland í aðalskipulagi en engin starfsemi eigi sér stað.

Rétt er að geta þess í upphafi að Þjóðskrá Íslands fer með yfirstjórn fasteignaskráningar samkvæmt lögum og annast rekstur gagna- og upplýsingakerfis sem nefnist fasteignaskrá. Þar eru allar fasteignir í landinu skráðar. Kjarni skrárinnar er upplýsingar um lönd og lóðir og afmörkun þeirra. Við þær upplýsingar er síðan skeytt mannvirkjum og réttindum þeim viðkomandi. Fasteignaskrá er grundvöllur þinglýsingabókar fasteigna, mats fasteigna og húsaskrár þjóðskrár og þannig úr garði gerð að hún nýtist sem stoðgagn í landupplýsingakerfum. Þar eru jafnframt varðveittar skráðar breytingar á skráningu.

Meta skal hverja fasteign til verðs eftir því sem næst verður komist á hverjum tíma og nánar er kveðið á um í lögum um skráningu og mat fasteigna. Sá hluti fasteignaskrárinnar sem tekur til mannvirkja hér á landi, þ.e. mannvirkjaskráin, er mjög góð. Hugað hefur verið að skráningu mannvirkja allt frá því að núverandi kerfi við útreikning á fasteignamati var tekið í notkun fyrir um 50 árum. Það er mat þeirra sem þekkja til að þessi skrá sé jafnvel ein sú besta sem gerist á heimsvísu. Hins vegar er ekki hægt að segja það sama um hinn hluta fasteignaskrárinnar sem tekur til landa og lóða eða landeignaskrá. Þar vantar verulega upp á að afmörkun landeigna sé með viðunandi hætti. Uppruni skrárinnar er reyndar frá Landnámu og hafa landeignir verið afmarkaðar með örnefnum en ekki teiknaðar upp á kort eins og gert er víða erlendis þó að byrjað hafi nú verið á því á nokkrum stöðum og verið gert í talsverðan tíma.

Fasteignamatskerfið sem er við lýði í dag tekur því lítið tillit til umfangs eða gæða. Það er fremur litið á það sem búið er að gera, eins og fram hefur komið, og notkun landsins. Því er mögulegt að tvær fasteignir á jafn stórum lóðum sem standa hlið við hlið og eru með sama nýtingarhlutfall geti haft mjög mismunandi fasteignamat eftir því hvernig lóðirnar eru nýttar og hvert ástand mannvirkjanna er. Þannig ber að benda sérstaklega á að verðmætar lóðir hafa þó verið mældar upp og Þjóðskrá Íslands á greinargóðar upplýsingar um hluta þessara lóða. Um síðustu aldamót hófst einnig vinna við að kortleggja og teikna þjóðlendur undir forystu forsætisráðuneytisins. Vinna við það verk hefur dregist en áætlað er að því verði lokið árið 2025 og mikilvægt er að tryggja verkefninu nægilega fjármuni sem og að halda áfram að kortleggja landið allt. Til að gera það mögulegt að lóðagjöld taki við núverandi fyrirkomulagi þarf að eiga sér stað mikið átak í uppmælingu landeigna sem myndi jafnframt byggja á þeim lagagrunni sem þar býr að baki.

Ég hef átt samtöl við forsvarsmenn Þjóðskrár Íslands sem hafa lýst því yfir að stofnunin sé reiðubúin að leggja fram tillögur um lagabreytingar sem gera þarf svo bæta megi skráningu landeigna og Þjóðskrá Íslands hefur einnig hugað að þeim breytingum sem þarf að gera á aðferðum við fasteignamat og það endurspegli betur áhrif bættrar skráningar, svo sem bæði jarða og lóða í dreifbýli.

Um kosti og galla þessa fyrirkomulags er það að segja að ljóst er að um mikla stefnubreytingu yrði að ræða ef farið yrði úr núverandi fasteignagjaldakerfi í nýtt kerfi sem byggði eingöngu á gjaldtöku á löndum og lóðum. Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga er álagningarstofninn á allar fasteignir, 0,5% skatthlutfall, lagður á íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd, jarðeignir, útihús, mannvirki, útibú á jörðum, hesthús, öll hlunnindi og sumarbústaði, þannig að lönd og lóðir eru hluti af núverandi kerfi en matshluti þeirra mun veikari eins og áður var vikið að. Þetta er vissulega áhugaverð hugmynd en hún myndi koma miklu róti á fasteignamarkað og íbúar sveitarfélaganna myndu verða fyrir miklum gjaldahækkunum sem og gjaldalækkunum, þar sem upplýsingar um afmarkanir lóða, stærð þeirra og hlutdeild eru almennt af skornum skammti. Verður að segja að forsendur þess að taka þetta kerfi upp í dag eru ekki fyrir hendi.

Ég legg áherslu á að það þurfi og megi bæta núverandi fasteignaskrárkerfi og rökrétt að hugað verði betur að mati lands, ekki síst í ljósi þess sem hv. þingmaður kom inn á í þeim breytingum sem við höfum verið að sjá í kaupum og sölum og uppsöfnun á jörðum og hafa greinargóða þýðingu og yfirlit yfir þá mynd. En til að það geti orðið þarf að efla skráningu á landi og afmörkun þess í landeignaskrá því að án bættrar skráningar verður lítil sem engin framþróun á verðmæti landeigna. Auðvitað þyrfti slíka vinnu og breytingar á lögum að rýna með m.a. Sambandi íslenskra sveitarfélaga, (Forseti hringir.) en fasteignaskatturinn er þeim mikilvægur tekjustofn, eins og hv. þingmaður kom inn á.