150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lóðagjöld á bújörðum og skattalegir hvatar til að halda jörðum í ábúð.

[13:45]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu. Efnið er ekki nýtt af nálinni og ég mun halda mig á slóðum bænda og landsbyggðar í þessari stuttu umræðu. Árum saman höfum við rætt um nýtingu landsins og bújarða, eignarhald og skilgreiningar, ráðstöfunarrétt, skattlagningu og almennt um búskaparhætti í þessu landi. Auðvitað er nátengd þessari umræðu allri afkoma bænda, þessarar sómastéttar matvælaframleiðenda sem við flest, almenningur í landinu, höfum litið upp til og virt í gegnum tíðina, þessarar stéttar sem allir núverandi stjórnarflokkar með tölu, hver með sínum hætti, saman og hver í sínu lagi, hafa leikið grátt svo að stéttin sem slík er komin að fótum fram. Þetta hafa þeir gert með fjölbreyttum kokteil af höftum, viðskiptafjötrum, glapsýn, úreltu og afdönkuðu markaðsstarfi og ítrekuðu og kolröngu stöðumati.

Okkur jafnaðarmönnum hefur í áranna rás verið brigslað um að vera sérstakir óvildarmenn bænda en það er rangt. Ætli við séum kannski ekki þegar upp er staðið hollustu og bestu talsmenn bænda og nýrra búhátta og þeir talsmenn sem trúa á möguleika hinna dreifðu byggða á nýjum forsendum. Til að sveitirnar lifi og blómstri þarf kúvendingu en ekki plástra, og ekki smáskammtalækningar eins og mér virðist hér enn og aftur vera lagt upp með.

Við þurfum að takast á við áleitnar spurningar. Þær hafa svo sem herjað á okkur í mörg ár. Hverjir eiga Ísland? Hverjir mega eiga Ísland? Hverjir mega kaupa jarðir? Mega það allir og þurfa engar skuldbindingar að fylgja? Eru útlendingar lakari kaupendur en íslenskir? Hirða þeir eitthvað verr um landið?

Þessi málefni hafa ítrekað verið á dagskrá Alþingis mörg undanfarin ár, en er það tilviljun ein að þingið hummar fram af sér að taka á þessum málum eins og nágrannalöndin hafa gert? Ef við gerum það ekki mun lausungin halda áfram og gífuryrðin og hneykslan í fjölmiðlum líka (Forseti hringir.) og jarðir halda áfram að ganga kaupum og sölum meðal íslenskra og útlenskra auðmanna eins og hver önnur lagervara.