150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lóðagjöld á bújörðum og skattalegir hvatar til að halda jörðum í ábúð.

[13:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða um hverjir eiga bújarðir og fasteignagjöld. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir þessa umræðu og ráðherra fyrir að taka þátt í henni. Fasteignagjöldin hafa farið algjörlega úr böndunum undanfarin ár og eru farin að bitna mjög alvarlega og illa á þeim sem eru tekjulægstir, sérstaklega þeim sem eru á örorkubótum. En við verðum að passa okkur á að fara ekki út í það að íþyngja bændunum með hækkun fasteignagjalda. Eins og við höfum orðið vör við eru alltaf fleiri og fleiri jarðir að fara í eyði og síðan vitum við líka að alltaf eru fleiri og fleiri jarðir að komast í eigu erlendra aðila.

Það sem er svolítið athyglisvert við þetta er að meira að segja fyrirtæki eiga fullt af jörðum. Það sem er enn furðulegra, að þetta eru fyrirtæki sem eru skráð kannski í EES-landi en enginn veit í sjálfu sér hvort það séu aðilar innan eða utan EES sem eiga jarðirnar. Stundum virðist ekki nokkur leið að átta sig á því hverjir eru raunverulegir eigendur. Ég myndi telja að þetta væri það grafalvarlegasta í málinu, að uppi skuli vera svoleiðis kerfi að við getum látið einhverja kaupa — ég segi bara fyrir mig að við eigum að taka t.d. Dani okkur til fyrirmyndar. Þar kaupa menn ekki jörð nema búa á henni. Menn þurfa líka að framleiða eitthvað á henni og þeir þurfa að vera búnir að búa í nokkur ár áður en þeir fá að kaupa jörð og þá skiptir engu máli hvort það er útlendingur eða innfæddur. Hann þarf að vera með kennitölu og búa.