150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lóðagjöld á bújörðum og skattalegir hvatar til að halda jörðum í ábúð.

[14:00]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Málshefjandi tengdi saman þýðingarmikil málefni, hömlur á jarðakaup útlendinga og fasteignaskattinn. Hvort sem málshefjandi hefur ætlað sér það ekki þá tókst henni að draga það fram að ríkisstjórnin er frekar dauf til augnanna, verður að segjast, þegar kemur að báðum þeim málum. Það er mikið talað en það er bið eftir aðgerðum og mér liggur við að segja, herra forseti, biðin endalausa.

Ég leyfi mér að rifja upp að í febrúar 2018 beindi ég óundirbúinni fyrirspurn til hæstv. ráðherra um fasteignamatið og hafði ærið tilefni. Þá hafði fasteignamat hækkað um 13,8% almennt talað en verðmat sumarbústaða hafði hækkað um 38,7%. Ég spurði hæstv. ráðherra hvort eigendur fasteigna gætu átt von á því að eiga skjól í honum og mér heyrðist af svari hans þá ekki vera svo. Ég verð að leyfa mér að segja að það hefur lítið gerst. Staðreyndin er sú að við erum hér með grundvöll undir þessu gjaldi sem er algerlega ógagnsær. Það er byggt á vélrænum útreikningum stofnana úti í bæ. Ég efa ekki að þar vinni menn samviskusamlega en það kemur enginn kjörinn fulltrúi að þessum skattahækkunum. Þetta er svo sérkennilegt að það kemur fram á vefsíðu þjóðskrár, sem hefur þetta með höndum, að verið sé að endurskoða þetta mat og það hafi verið leiðrétt skekkja sem tengist mati á sumarbústöðum. (Forseti hringir.) Ég veit ekki til að nokkur maður hafi fengið endurgreiðslu. Það kemur líka fram að nú vegi fjarlægð í sundlaug inn í matið og (Forseti hringir.) menn búa við þetta sem grundvöll skattlagningar, ofurskattlagningar sem ekki sér fyrir endann á. Þessu verður að linna, herra forseti.