150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lóðagjöld á bújörðum og skattalegir hvatar til að halda jörðum í ábúð.

[14:03]
Horfa

María Hjálmarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að setja þetta mál á dagskrá og fagna þeim áhuga sem hér er sýndur á að ýta undir bætta nýtingu bújarða og að víkka tekjustofna sveitarfélaga. Þótt slíkir hvatar geti auðvitað verið ágætir tel ég hins vegar enn mikilvægara, ef við viljum raunverulega gera eitthvað í málunum, að farið verði í að bæta innviði. Má þar nefna þriggja fasa rafmagn og að gefa bændum færi á að auka fjölbreytni í framleiðslu og þar með auka atvinnustarfsemi í sveitum. Þetta er það sem myndi raunverulega breyta einhverju.

Herra forseti. Við heyrum mikið talað um að nýjar hugmyndir þurfi og mikið er rætt um nýsköpun í landbúnaði en þegar á hólminn er komið eru hindranirnar því miður of margar. Þá spila aðrir þættir inn í eins og flutningskostnaður, takmarkaður stuðningur við lífræna ræktun og óhefðbundnar búgreinar.

Herra forseti. Íslenskur landbúnaður stendur á algjörum krossgötum. Það þarf að einfalda kynslóðaskipti og á mun víðari hátt en með skattalegum hvötum þótt þeir séu auðvitað ágætir með. Það er ekki nóg að laða að fólk og hvetja það til að búa í sveitum, það þarf að greiða veginn svo fólk sjá sér fært að búa í sveitinni til framtíðar. Í stuttu máli sagt, herra forseti, þarf að gera það meira aðlaðandi að búa í sveitum, t.d. með betri nettengingu, betri samgöngum og betri tengingu við skóla fyrir barnafólk.

Það eru þjóðhagslegir hagsmunir í því að reka fjölbreytt og öflugt atvinnulíf um allt land, ekki síst matvælaframleiðslu sem byggist sem allra mest á innlendri vöru. Með því skilum við þjóðarbúinu mestu, bæði vegna nýtingar auðlinda og þeirrar vinnu sem leggja þarf til framleiðslunnar.