150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lóðagjöld á bújörðum og skattalegir hvatar til að halda jörðum í ábúð.

[14:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir innlegg hennar í þessa umræðu og eins ræðu hæstv. ráðherra. Ég játa að umræðan sem slík hefur ekki að öllu leyti snúist um það upplegg sem kom frá hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur heldur hafa þingmenn leyft sér að fara nokkuð vítt yfir sviðið, tekið fyrir almenna landbúnaðarpólitík, almennar reglur um viðskipti með bújarðir og raunar almennt um landbúnaðarkerfið þannig að víða hefur verið komið við.

Til að reyna að ná utan um spurningarnar sem hv. þingmaður spyr hæstv. ráðherra myndi ég bregðast þannig við að ég hugsa að það sé full ástæða til að fara yfir þær reglur sem gilda um skattlagningu á þessu sviði. Ég held að það sé alveg tilefni til þess og í sjálfu sér ýta mörg orð sem hafa fallið hér í umræðunni undir þá skoðun mína að tilefni sé til að fara yfir þær reglur sem gilda um skattlagningu bújarða. Ég er hins vegar ekki viss um að sú leið sem hv. málshefjandi ýjar að í þessu sambandi sé endilega sú rétta. Ég vil hafa ákveðna fyrirvara á því. Það kann að vera skekkja í dag en það má vera að sú leið sem hér er lögð til leiði til einhverrar annarrar skekkju. Ég held að endurskoðunarvinna eigi tvímælalaust fullan rétt á sér.

Ég legg hins vegar áherslu á það að skattlagning á þessu sviði sem öðrum á auðvitað að byggja á almennum reglum og almennum forsendum. Menn eiga að forðast sértækar reglur og ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa hér í dag (Forseti hringir.) lagt áherslu á að ekki sé tilefni til að auka skattheimtu á gjaldstofn af þessu tagi frekar en annars staðar.