150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lóðagjöld á bújörðum og skattalegir hvatar til að halda jörðum í ábúð.

[14:09]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson kom inn á að verið væri að ræða skatta, fasteignagjöld. Ég spyr mig þá: Er rétt að skattleggja á nákvæmlega sama hátt ungan bónda sem er að reyna að byrja að yrkja jörðina og auðkýfing sem kaupir upp jörð eftir jörð, eingöngu til þess að vera í stangveiði, laxveiði? Þarna er himinn og haf á milli. Ungi bóndinn sem er að reyna að koma sér af stað við að yrkja jörðina er skuldum vafinn en auðkýfingurinn virðist vera að leika sér.

Það er líka annað í þessu sem er furðulegt og það er hversu auðvelt er að kaupa allt upp á Íslandi. Ef maður skoðar t.d. Danmörku er bara ekki hægt að kaupa einn bæ úti í sveit þar nema vera með kennitölu. Það eru smáundantekningar á því ef viðkomandi hefur tengsl en þá undanþágu þarf að sækja um til ráðherra. Hér virðist hægt að kaupa upp heilu jarðirnar án þess að nokkuð þurfi til. Við vitum líka að það er alltaf talað þannig ef maður er ósammála útlendingum og annað að maður sé kominn í grátkór bænda. Þetta er að verða eins og í kvótakerfinu þar sem er mikil samþjöppun. Stórir aðilar kaupa lönd, litlu bændurnir eiga í vök að verjast og við erum að ala upp kynslóð barna sem aldrei fara í sveit og halda að maturinn verði til í búðinni. Þetta er eiginlega skelfileg þróun og þess vegna eigum við að sjá til þess að bændur geti búið á jörðum sínum án þess að við aukum kostnaðinn á þá, heldur á það frekar að vera á hinn veginn, að við auðveldum þeim að búa þar.