150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirferðina og framsöguna. Hann minntist á urðunarskattinn og ég verð að koma aðeins inn á hann. Sá hringlandaháttur sem ríkisstjórnin hefur viðhaft hvað varðar hugmyndir um þessa skattlagningu er með ólíkindum. Í 1. umr. þessa máls stóð til að leggja þennan skatt á og öll andmæli hagsmunaaðila sem komu að því máli voru gjörsamlega hunsuð. Það kemur t.d. fram í frumvarpinu, þar sem segir:

„Með hliðsjón af stefnu stjórnvalda gefur umsögn Sambandsins ekki tilefni til breytinga á frumvarpinu.“

Síðan er búið að hræra í þessu öllu saman og stendur til að skoða málið betur, enda ekki nema von vegna þess að það hefur fengið algjöra falleinkunn hjá sveitarfélögunum, það sérstaka áhugamál ríkisstjórnarinnar að leggja á nýja skatta og færa þá í þessa fallegu búninga.

Ég spyr hv. þingmann: (Forseti hringir.) Verður þessi skattur þá lagður á í næstu fjárlögum, þ.e. í síðustu fjárlögum þessarar ríkisstjórnar, og kemur hann til með að þjóna því hlutverki sem hann á að gera? Hvað gerist t.d. þar sem sorp er brennt eins og á Suðurnesjum, koma þau sveitarfélög til með að greiða þennan skatt?