150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni. Ég hef sagt í ræðu og riti áður að ég vil ekki og get aldrei tekið þátt í því að umhverfisskattar séu eitthvert sérstakt skjól til að hækka almennt álögur á fyrirtæki og einstaklinga, enda er það ekki markmiðið með þeim. Markmiðið er fyrst og fremst að stuðla að betri umgengni okkar sjálfra við náttúruna. Ég er þar. Þess vegna er það líka spurning þegar við leggjum saman tekjuöflun ríkisins hvort við verðum þá ekki að fara að horfa fram hjá þessum svokölluðu umhverfissköttum eða grænu sköttum. Þeir eiga að vera tímabundnir og þeir eiga að hverfa. Ef þeir hverfa ekki hafa þeir ekki náð tilgangi sínum. Það er alveg ljóst. Og þá er þetta ekki grænn skattur eða umhverfisskattur. Þá er þetta bara hrein tekjuöflun ríkisins og þá skulum við bara tala um það þannig.