150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:35]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Nú höfum við hv. þm. Óli Björn Kárason oft rætt saman um mikilvægi þess að hægt sé að útskýra á skýran hátt hver rökstuðningurinn er á bak við öll gjöld sem ríkisstofnanir leggja á í sínu starfi. Ég hef farið fram á það í efnahags- og viðskiptanefnd, að ég held í þrjú ár, að þetta verði tekið til endurskoðunar, alla vega skoðað hver rökin eru. Nú er enn einu sinni, í þessum bandormi svokallaða, verið að hækka þessi gjöld án þess að fyrir liggi nokkur greining á því hver rökstuðningurinn er á bak við. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort einhver von sé á því að við getum farið í þá vinnu að greina þetta á næstunni og hvenær.