150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:38]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Forseti. Það væri kannski ráð að ákveða einhvern tíma og reyna að standa við það því þetta er orðið ansi brýnt. Nú er t.d. í aukatekjum ríkissjóðs, sem verið er að breyta með þessu frumvarpi, verið að rukka fólk sem ætlar að stofna nýtt fyrirtæki um 130 þús. kr. og gott betur. Í sömu aukatekjum ríkissjóðs er verið að rukka ýmislegt annað sem við vitum að er langt umfram það að vera hóflegt gjald og er í raun skattur. Það er sumt sem við viljum skattleggja, t.d. bensín. Það er ástæða til að nota þetta sem ákveðna neyslustýringu, ekki síst í ljósi loftslagsvandans, en við skulum alla vega hafa það skýrt hvort er í hverju tilfelli. Að sama skapi eru ákveðin útgjöld hjá ríkinu meiri en rukkað er fyrir og það er hið besta mál vegna þess að stundum er verið að gera það, t.d. í heilbrigðiskerfinu, til að auðvelda fólki hlutina. En í öllu falli verðum við að vinna þessa greiningu og ég bara bið hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar um að finna tíma til að fara í þessa vinnu.