150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona innilega að hv. þingmaður og Skagfirðingur, Gunnar Bragi Sveinsson, hafi rangt fyrir sér um að þessi skattur hverfi ekki. (Gripið fram í.) Auðvitað hverfur hann. Hins vegar er það á valdi okkar sjálfra hvort hann hverfur eða ekki. Þess vegna sagði ég í framsöguræðu minni að það skipti svo miklu máli þegar við erum að ræða um gjaldtöku eða skatta af þessu tagi að við áttum okkur á því að hér er ekki um að ræða tekjuöflun fyrir ríkissjóð í hefðbundnum skilningi, tekjur sem síðan er hægt að ráðstafa til þess að lækka einhver önnur gjöld. Markmiðið er að þessi skattur hverfi. Annars virkar hann ekki og þá þarf að endurskoða málið vegna þess að þá erum við að gera eitthvað rangt. Ég er algjörlega sannfærður um að ef við framkvæmum þetta með réttum hætti og málið er unnið (Forseti hringir.) eins og þarf að vinna það og sé það undirbúið á öllum stigum máls, hjá umhverfisráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, munum við ná ótrúlegum árangri.