150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:46]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2020. Kennir þar ýmissa grasa. Í fyrsta lagi er verið að hækka ýmis gjöld. Eins og segir á bls. 10 í frumvarpinu er 2,5% hækkun á svokölluðum krónutölusköttum og þar er talið upp olíugjald, bensíngjald, kílómetragjald og bifreiðagjald. Öll þessi gjöld á bifreiðar hækka um áramótin um 2,5% og það verður að segjast eins og er að bifreiðar eru greinilega sérstakt áhugamál þegar kemur að skattlagningu hjá hinu opinbera. Nú hefur verið settur á kolefnisskattur eða kolefnisgjald sem hækkar lítrann af bensíni um 12 eða 13 kr. Skattlagning á bifreiðar er að mínum dómi komin alveg að ystu mörkum og Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur ályktað á sama veg. Ég hvet ríkisstjórnina til að íhuga þetta vandlega vegna þess að skattar sem þessir bitna líka sérstaklega á landsbyggðinni og þar nefni ég kolefnisgjaldið sem dæmi. Íbúar þar þurfa að aka um lengri veg en gengur og gerist á höfuðborgarsvæðinu svo dæmi sé tekið. Ég tel að stjórnvöld eigi að íhuga alvarlega að draga úr skattheimtu á bifreiðaeigendur, hlusta á þau rök sem Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur sett fram í þeim efnum og draga úr þessum árlegu hækkunum á bifreiðaeigendur.

Hér er einnig verið að hækka gjöld til Fjármálaeftirlitsins. Bankarnir hafa kvartað yfir þeirri gjaldheimtu og reyndar fleiri gjöldum eins og bankaskattinum en kjarni málsins er að í þessu tilfelli er verið að draga úr þessari skattheimtu að því leytinu til að það er verið að ganga á eigið fé stofnunarinnar. Ég hef reyndar gagnrýnt það áður úr þessum ræðustól. Í því sambandi vil ég þó nefna að Miðflokkurinn lagði fram breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið um að við sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands yrði gerð sérstök hagræðingarkrafa. Það er alveg ljóst að þegar stofnanir eins og þessar sameinast, þar sem þær sinna að hluta til svipuðum verkefnum á ákveðnum sviðum, er eðlilegt að því fylgi ákveðin hagræðingarkrafa og sparnaður fyrir ríkissjóð. Það er þó ekki í þessu tilfelli og það var meira að segja sérstaklega tekið fram þegar sameiningaráformin voru kynnt að engum starfsmanni yrði sagt upp. Ég tel þetta ranga nálgun í svona stóru máli. Þessar tvær stofnanir eru okkur mjög mikilvægar og sinna mjög mikilvægum verkefnum en engu að síður verður að gera þá kröfu að sameiningunni fylgi hagræðing.

Á bls. 10 er einnig rætt um gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Í frumvarpinu er lögð til 2,5% hækkun á gjaldi í sjóðinn og samkvæmt því verður gjaldið 11.740 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2020 vegna tekna ársins 2019. Áætlað er að hækkunin skili ríkissjóði u.þ.b. 65 millj. kr. viðbótartekjum á ári. Einnig segir á bls. 11, þar sem rætt er um rekstrarkostnað hjúkrunarrýma og kostnaðarþátttöku heimilismanna, að heimilt verði að verja fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða á árinu 2020. Hér er um bráðabirgðaheimild að ræða sem hefur verið framlengd sem lýtur að því að greiða megi rekstrarkostnað hjúkrunarheimila úr Framkvæmdasjóði aldraðra en hins vegar hefur aldrei verið hlutverk sjóðsins að annast rekstur. Sjóðnum hefur ekki gengið vel að fjármagna nauðsynlega uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarheimila eins og honum er ætlað þar sem framlög til hans eru mun minni en sem nemur sívaxandi þörf fyrir slíkt húsnæði.

Það kemur skýrt fram í nefndaráliti mínu sem ég lagði fram við 2. og 3. umr. fjárlaga að staðan á uppbyggingu hjúkrunarheimila er í raun og veru langt á eftir þörfinni. Meira að segja er það svo, sem er mjög sérkennilegt, að heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að setja á biðreikning tæpar 300 millj. kr. sem ætlaðar voru til að nýta til uppbyggingar í þessum efnum og fjárlaganefnd samþykkti. Með þessu framlagi var fjárlaganefnd að reyna að styrkja rekstrargrundvöllinn. Það er hins vegar mjög sérkennilegt að þetta fé skuli hafa verið sett á biðreikning. Það er í raun og veru afleitt og mjög sérkennilegt að á sama tíma og haldið er áfram að draga úr fjárfestingaráformum sjóðsins er veitt fé úr honum til rekstrar í stað þess að hann geti einbeitt sér að fjárfestingarverkefnum, enda hefur hann enga getu til að sinna því lögbundna hlutverki og vera auk þess í rekstrarhlutverki. Ég tel mjög mikilvægt að heilbrigðisráðherra fari ofan í kjölinn á þessu máli og að fyrir honum opnist ákveðin sýn hvað þetta varðar vegna þess að ráðherra áttar sig að mínum dómi ekki alveg á því að það er ekki hlutverk sjóðsins að koma að rekstri. Það hefur meira að segja verið áréttað af forstjóra Landspítalans að hægt væri að auka afköst spítalans ef unnt væri að búa þeim öldruðum heimili sem nú dvelja við óviðunandi aðstæður á spítalanum, geta ekki lengur dvalið á sínum fyrri heimilum og bíða eftir nýju heimili á hjúkrunarheimili eða þar sem veitt er aðstoð af því tagi.

Kannski hefur ráðherra í raun og veru láðst að móta stefnu í þessum mikilvæga málaflokki þegar lögð var fram svokölluð heilbrigðisstefna. Sú stefna býr í raun og veru til vandamál og getur þar af leiðandi ekki talist nein stefna, ef það má orða það þannig. Stefnumörkun er til að leysa málin en ekki búa til vandamál og allra síst hjá eldri borgurum sem þarfnast heimilis og öryggis eins og allir aðrir. Það er brýnt að sjóðurinn sinni sínu lögbundna hlutverki en ekki þessum rekstrarframlögum og það verður að taka á því máli.

Næst ætla ég að víkja að kaflanum um sóknargjöld. Í frumvarpinu er lagt til að föst krónutala sóknargjalda hækki úr 925 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 930 kr. fyrir árið 2020. Jafnframt er hér talað um lögboðið framlag til sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga sem leiðir hugann að því sem ég tel rétt að nefna í þessu sambandi, að fyrir nokkru var endurvakið félag hér á landi sem hugðist endurgreiða meðlimum sínum sóknargjöld sem söfnuðir fá greitt úr ríkissjóði, eins og ég nefndi hér. Í ljós kom að það var nokkur áhugi á þessu félagi og tókst að fjölga meðlimum tiltölulega hratt vegna þess að því var lofað að sóknargjaldið yrði endurgreitt. Síðan kom í ljós að loforð félagsins um að skila gjaldinu aftur til meðlima voru ekki eins afdráttarlaus og forsvarsmenn þess höfðu lofað, en eins og ég sagði hafði sú forsenda gert það að verkum að það fjölgaði töluvert í þessu félagi. Ég tel mikilvægt að koma í veg fyrir að félög séu ranglega skráð sem trú- og lífsskoðunarfélög þar sem markmiðið virðist fremur vera að hafa fé af fólki og ríkissjóði, ef svo má að orði komast. Það er mjög mikilvægt að sá aðili sem sér um skráninguna, sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra, tryggi að ekki sé hægt að stunda blekkingar af þessum toga í gegnum skráð félög hjá ríkinu. Skráningin hjá ríkinu eykur náttúrlega tiltrú manna á að um sé að ræða raunverulegt trú- eða lífsskoðunarfélag og opinber skráning tryggir ákveðna reglufestu, eftirlit og trúnaðartraust. Á þeim forsendum má segja að þeir sem hafa áhuga á slíku félagi sjái að það sé lögbundin skráning í gegnum hið opinbera en síðan komi annað í ljós, að tilgangur félagsins hafi kannski ekki verið sá að vera trú- eða lífsskoðunarfélag. Í þessu ákveðna tilfelli virðist sem þessir hlutir hafi alveg brugðist og er umhugsunarvert hvernig þetta getur gerst. Að mínum dómi er mjög mikilvægt að koma í veg fyrir það. Þar sem sýslumaður annast þessi mál er mikilvægt að embætti hans leggi ásamt dómsmálaráðuneytinu, væntanlega undir handleiðslu fjármálaráðuneytisins, fram nýjar reglur sem ætlaðar eru til að tryggja að svona starfsemi sé ekki hægt að stunda í skjóli ríkisins þegar hinn raunverulegi ásetningur og hugmyndafræði að baki stofnun slíks félags er ekki í trúarlegum eða lífsskoðunarlegum tilgangi.

Á bls. 13 er fjallað um sérstakt gjald vegna Ríkisútvarpsins. Lagt er til að sérstakt gjald vegna Ríkisútvarpsins verði hækkað úr 17.500 kr. í 17.900 kr., þ.e. sem nemur almennum verðlagsbreytingum. Áætlaðar viðbótartekjur af hækkuninni nema um 120 millj. kr. árlega. Á fjárlögum næsta árs fær Ríkisútvarpið 4,8 milljarða kr. Það er vissulega há upphæð og leiðir hugann að því hvort Ríkisútvarpið geti ekki sinnt lögbundnu hlutverki sínu með minni tilkostnaði. Ég held að það sé nauðsynlegt að fara yfir það mál vegna þess að Ríkisútvarpið er á samkeppnismarkaði, í samkeppni um auglýsingar svo dæmi sé tekið, og aðrir fjölmiðlar hafa barist í bökkum með rekstrarfé. Hér leggur hið opinbera Ríkisútvarpinu til þessa háu fjárhæð. Ég tel fulla þörf á að fara ofan í saumana á því hvort ekki sé hægt að spara á þessu sviði. Miðflokkurinn hefur talað fyrir því að við drögum úr útgjöldum ríkisins hvað þessa hluti varðar og drögum úr ríkisbákninu. Það er óvenjulegt að mínum dómi að svo há upphæð skuli fara í þennan rekstur og það hlýtur að vera hægt að spara á þessu sviði eins og öðrum. Miðflokkurinn lagði til með breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið hagræðingu til allra ráðuneyta upp á 1 milljarð kr. Að mínum dómi er alveg sjálfsagt að skoða hvort ekki megi hagræða hjá Ríkisútvarpinu vegna þess að aðstæðurnar þar, þ.e. samkeppnismarkaðurinn, valda ýmsum árekstrum, t.d. hvað varðar auglýsingamarkaðinn.

Ég vil í lokin koma aftur inn á urðunarskattinn sem kemur reyndar ekki til framkvæmda í fjárlögum næsta árs. Hins vegar er alveg augljóst að stjórnvöld ætla að leggja þennan skatt á. Ég nefndi áðan í andsvari að ríkt hefði hringlandaháttur varðandi þessa skattheimtu. Til stóð að hún yrði að veruleika en síðan var ríkisstjórnin gerð afturreka með þau áform vegna lélegs undirbúnings. Umsagnir bárust sem voru mjög harðorðar í garð þessarar skattheimtu. Það verður að segjast eins og er að það eru léleg vinnubrögð að fara af stað með svona skattheimtu sem er ekki betur undirbúin en þetta. Auk þess er fróðlegt að skoða t.d. umsögn um þetta frá fyrirtækinu Sorpu. Það fyrirtæki telur augljóst að tilgangur hugmynda um þennan skatt sé ekki verndun umhverfisins eða aukning í endurvinnslu eða endurnotkun. Sorpa telur jafnframt að tilgangurinn virðist heldur ekki vera að minnka úrgang því að urðunarskattur sé lélegt stjórntæki til þess. Reiknast Sorpu til að meðalupphæð urðunarskatts þar sem hann er lagður á sé 4,93 kr. á kíló en 4,38 kr. ef allra hæsti skatturinn er undanskilinn. Hér er áformað að urðunarskattur verði 15 kr. á kíló og það þýðir 62% hækkun á urðunargjaldi hjá Sorpu. Bein útgjaldaaukning íbúa á starfssvæði Sorpu er talin nema um 795 millj. kr. á ári og er það mat Sorpu að ekki sé hægt að tengja þann kostnað við það sem hver íbúi láti til urðunar heldur verði að innheimta gjaldið sem aukagjald á hvern íbúa. Eins muni atvinnulífið þurfa að greiða um 1,6 milljarða kr. og muni sá kostnaður líka greiðast með einhverju móti úr veski hins almenna borgara. Það sé til skynsamlegri leið til að ná þeim markmiðum sem urðunarskattinum er ætlað að ná og þar nefnir Sorpa að bent hafi verið á að hægt sé að minnka það sem fer til urðunar með því t.d. að setja skilagjald á þá vöruflokka sem við viljum ekki að fari til urðunar.

Eitt kíló af sorpi sem fer til urðunar er ekki betra í jörðu komið þó að það sé með urðunarskatti.

Auk þess kom fram hjá umsagnaraðilum að ekkert samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila. Hv. þm. Óli Björn Kárason sagði einmitt að fallið hafi verið frá þessari skattheimtu til að fara í þetta samráð en ég segi bara eins og er, frú forseti, að það eru ekki rétt vinnubrögð að demba inn einhverjum hugmyndum um skattlagningu án nokkurs samráðs og vera síðan gerður afturreka með þær hugmyndir vegna þess að þær eru svo illa ígrundaðar. Ég nefni t.d. sveitarfélögin og fyrirtækin sem eiga að sjá um að innheimta þennan skatt en þær hugmyndir voru nánast ekkert ræddar, hvað þá að þær hafi verið tilbúnar til framlagningar. Hver maður sér að það var ákaflega illa staðið að þessu og ég hvet ríkisstjórnina til að falla frá þessum skatti vegna þess að (Forseti hringir.) það er greinilegt að hann mun ekki skila því sem til er ætlast. Það eru til betri og skilvirkari leiðir í þeim efnum eins og skilagjaldið sem ég nefndi áðan.