150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[16:06]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er af ýmsu að taka í ræðu hv. þm. Birgis Þórarinssonar sem ég gæti farið yfir, en ég vil byrja á að taka undir með hv. þingmanni hvað varðar Framkvæmdasjóð aldraðra, auðvitað væri réttast að framkvæmdasjóðurinn fengi áfram að njóta þess hlutverks sem honum er ætlað í stofnskrá, þ.e. að standa undir framkvæmdum fremur en rekstri. Ég held að þingmenn allra flokka á Alþingi hafi á einhverjum tíma lýst þeirri skoðun sinni. Ég vona eins og þingmaðurinn að það fari að sjá til lands í því að við leysum sjóðinn undan þessari skyldu.

Það sem ég vil hins vegar gagnrýna þingmanninn sérstaklega fyrir er það sem hann hélt hér fram, að hæstv. heilbrigðisráðherra hefði ekki staðið sig í málefnum eldra fólks. Þar held ég að þingmaðurinn sé á villigötum. Eitt af forgangsverkefnum núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra er einmitt að sinna málefnum eldra fólks sérstaklega vel eins og sést til að mynda á tillögu þeirri sem birt var í dag um heilsueflandi móttökur fyrir eldra fólk. Þær móttökur eiga að vera einn þátturinn í því að draga úr þörfinni fyrir hjúkrunarrými síðar eins og sést í aukningu á fjárframlögum til heimahjúkrunar sem var tilkynnt nýlega og eins og sést í drögum að stefnu í málefnum einstaklinga með heilabilun. Ég held að það sé engin innstæða fyrir þessum yfirlýsingum hv. þingmanns áðan.