150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[16:11]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Sem betur fer held ég að langflestir þingmenn séu þegar allt kemur til alls sammála þeirri stefnu að það þurfi að gera vel í málefnum eldra fólks. Það er líka akkúrat það sem hæstv. heilbrigðisráðherra er að vinna að sem kemur m.a. fram í stefnu um málefni einstaklinga með heilabilun sem birtist á vef heilbrigðisráðuneytisins 24. júní sl.

Ég get engan veginn tekið undir það að lítið sé að gert. Það er ráðgert að á næsta ári, strax í febrúar, muni opna 100 ný hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu. Í febrúar á þessu ári var opnað 40 rýma hjúkrunarheimili úti á Seltjarnarnesi. Fyrr í þessum mánuði var tekin skóflustunga að heimili með 60 nýjum rýmum fyrir austan fjall. Þannig mætti lengi telja. Hins vegar hef ég margoft komið inn á það í ræðum mínum að ef við höldum okkur við sama þjónustufyrirkomulag í málefnum eldra fólks, þ.e. að halda alltaf áfram að bæta við hjúkrunarrýmum eftir því sem öldruðum fjölgar í stað þess að taka ákvörðun um að reyna að stemma stigu við þörfinni, eins og hæstv. ráðherra er að gera með heilsueflandi móttökum og eflingu heimahjúkrunar, verðum við á endanum komin í fyrirkomulag þar sem við verðum með í kringum 8.000 hjúkrunarrými fyrir árið 2050. Ég held að hvorki hv. þingmaður (Forseti hringir.) né aðrir sjái það sem einhverja draumsýn í málefnum eldra fólks.