150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[16:17]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að tala um þetta ágæta mál. Kannski er best að byrja þar sem ég var í andsvörum við hv. þm. Óla Björn Kárason áðan um krónutöluhækkanir og lög um aukatekjur ríkissjóðs. Eins og ég sagði vantar góðan rökstuðning fyrir því hvers vegna gjöld eru eins og þau eru. Þau eiga í flestum tilfellum eingöngu að vera gjöld vegna veittrar þjónustu en ekki tekjuöflunarmekanismi fyrir ríkissjóð. Sem dæmi um atriði þarna undir eru þinglýsingargjöld, gjöld vegna aðgerða lögbókenda, gjöld vegna skráningar fyrirtækja, veitingar atvinnuréttinda, leyfa fyrir atvinnustarfsemi og umsókna um ríkisborgararétt og dvalarleyfi. Þá má líka nefna að ljósrit eru tiltekin í lögum um aukatekjur ríkissjóðs og skulu þau kosta 300 kr. hver síða sem ég held að verði að kallast frekar djarft þegar verið er að tala um gjöld sem eiga að standa undir raunkostnaði.

Mér skilst á formanni efnahags- og viðskiptanefndar að skilaboðin hafi verið móttekin og að fundinn verði tími fyrir þetta í janúar. Það er mjög gott og ég fagna því.

Mig langar að ræða í víðara samhengi um skattstefnu Íslands. Þótt ákveðin hætta sé á því að ég endurtaki mig, enda hef ég verið að segja mjög svipaða hluti undanfarin ár, ætla ég í þágu þess að spara tíma að vísa í fyrri ræður mínar um málefnið. Ég tek fram aðalatriðið sem er að skattstefna Íslands byggir enn á þeirri úreltu hugmyndafræði að hlutverk skatta sé að fjármagna útgjöld ríkissjóðs og að takmörkuðu leyti að stuðla að jöfnuði. Við betri skoðun sést að skattar hafa fyrst og fremst það hlutverk að auka eftirspurn eftir krónum og taka þær um leið úr umferð. Það dregur úr verðbólgu og vissulega er ákveðinn jöfnunarþáttur í því en viðvarandi gölluð greining veldur því að við erum alltaf að skoða skattstefnuna frá röngum enda. Það er ágætt að hafa þetta lykilatriði í huga þegar við siglum inn í niðursveiflu í hagkerfinu, enda eru kannski ekki allir sammála um áhrif ríkisútgjalda á niðursveiflur. Höldum því til haga að sem stendur eru hreinar skuldir ríkissjóðs um 619 milljarðar kr., um 21% af vergri landsframleiðslu. Ef við tökum ekki endurlán og sjóði með stendur skuldahlutfallið í um 30% af vergri landsframleiðslu. Til samanburðar setur það okkur á milli Gvatemala og Sádi-Arabíu í skuldastigi. Flest vestræn lönd eru með mun hærra skuldastig en við. Ef við settum ríkisfjármálin í almennilegt samhengi mætti segja að nú væri rosalega stórt svigrúm til að endurhugsa hvar skattbyrðin lendir, jafnvel minnka hana á sumum sviðum en á sama tíma auka útgjöld á þann hátt að það mæti þessari niðursveiflu.

Undanfarið hefur Seðlabankinn ítrekað lækkað stýrivexti. Mörgum hefur þótt það ágætt vegna þess að stýrivextir hafa verið ansi háir. Ef marka má Stephanie Kelton, prófessor í hagfræði, sem rannsakar opinbera fjármálastefnu mun lækkun stýrivaxta ekki ýta undir frekari útgjöld í niðursveiflu vegna þess að fyrirtæki eru líklegri til að halda að sér höndum í gegnum niðursveifluna þrátt fyrir þessa vaxtarhvata. Má frekar eiga von á því að ný lán á góðum kjörum séu fyrst og fremst endurfjármagnanir fólks eða fyrirtækja sem eru orðin hundleið á yfirgengilega háu vaxtastigi. Ég er í sjálfu sér ekki að gagnrýna það að stýrivextir lækki, það er mjög jákvætt, en er frekar að gagnrýna að það skuli vera innbyggt í forsendur ríkisstjórnarinnar að það eitt og sér muni minnka niðursveifluna og draga úr dýpt hennar sem byggist í raun á hugmyndafræði sem margsinnis hefur verið sýnt fram á að stenst ekki. Sé markmiðið að minnka niðursveifluna hefði kannski verið æskilegt að auka verulega fjármagn til nýsköpunar, eins og ég tók fram í ræðu um fjárlagafrumvarpið á sínum tíma, og þá meina ég umfram það sem gert var í fjárlögum. Sömuleiðis eru niðursveiflur góður tími til að breyta skattbyrðinni þannig að hún haldi áfram að framkalla eftirspurn eftir gjaldmiðlinum samhliða því að létta undir með nýframkvæmdum, nýsköpun og uppbyggingu.

Það er lykilatriði að ríkisstjórnir eins og ríkisstjórn Íslands átti sig á því að takmarkandi þátturinn í umsvifum hagkerfisins, og vissulega í umsvifum ríkisstjórnarinnar og kerfisins, er ekki magn peninga í umferð enda er hægt að stýra því bæði með útgáfu og innköllun. Takmarkandi þátturinn er framleiðslugeta samfélagsins og niðursveiflur verða til vegna ýmissa þátta. Ég ætla ekkert að rekja það hér enda er það efni í ansi drjúgan fyrirlestur og vonandi verður hann þá haldinn af einhverjum sem er betur upplýstur en ég.

Niðursveiflur hafa í för með sér að lægra hlutfall framleiðslugetu í samfélaginu er nýtt. Meira iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði stendur tómt, fleiri vélar standa ónotaðar og fleiri sitja heima hjá sér atvinnulausir. Við þessu er til einföld lausn. Hægt væri að beita skattstefnu ríkisins, ríkisfjármálastefnu og peningastefnu í þágu þess verkefnis að koma fólki í vinnu, koma vélum í gang og koma húsnæði í notkun. Í stóra samhenginu hefur ekki verið nógu mikið rætt um þessa hlið samhengisins vegna þess að alltaf er komið fram við fjárlögin og bandorminn svokallaða, sem er safn lagafrumvarpa um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga, eins og fyrirbæri sem hafi mjög takmarkaða tengingu við restina af hagkerfinu. Það sést einkum í því að á örfáum blaðsíðum er fjallað um efnahagslegar forsendur sem eru byggðar á líkani sem tekur ekki einu sinni mið af því hvaða áhrif ríkisútgjöld munu hafa á hagkerfið sjálft. Ég hef verið gjarn á að gagnrýna lög um opinber fjármál fyrir það að ekki sé horft á heildarmyndina enda eru margir gallar í lögum um opinber fjármál og við höfum rætt það svolítið hér síðustu daga. Við hljótum þó öll að geta sammælst um að það er ágætishugmynd að opinber fjármál séu rekin með sveiflujafnandi hætti. Það verður best gert með því að stilla hvata rétt og er ekki gert með þessu frumvarpi. Jafnframt ætti að tryggja að framleiðslugeta samfélagsins sé ekki að hrökkva í og úr gír eftir því hvernig viðrar, heldur þarf frekar að viðhalda nokkuð þéttri samfellu í nýtingu á framleiðslugetunni, ekki að rjúka alltaf upp í topp vegna þess að svigrúm þarf að vera fyrir sveiflur og breytingar á notkun en það þarf að viðhalda nokkuð góðu jafnvægi.

Fyrir utan þessa gagnrýni, sem er auðvitað gagnrýni á núverandi skattkerfi og ríkjandi hugsunarhátt í þessum málum, er í sjálfu sér ekki neitt annað sem mér finnst þess virði að gagnrýna í þessu tiltekna frumvarpi. Tom Lehrer sagði á sínum tíma: Sá sem spyr heimskulegra spurninga fær heimskuleg svör. Ef spurningin er: Eru þetta góðar breytingar á skattkerfinu? ætti kannski helst að svara með kínverska orðinu „wu“ að hætti Roberts Pirsigs því að spurningin sjálf er röng. Réttari spurning er hvort núverandi skattkerfi virki í samræmi við raunveruleika undirliggjandi hagkerfis og ég held að svarið við henni sé nei.