150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[16:27]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér í 2. umr. frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga, stundum kallað bandormur. Ég ætla ekki að endurtaka það sem hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Óli Björn Kárason, fór yfir áðan sem hluta af nefndaráliti meiri hlutans. Mig langar engu að síður að hnykkja sérstaklega á fáeinum atriðum. Nefndin fer í stuttu máli yfir bráðabirgðaákvæði um frítekjumark örorkulífeyrisþega sem er í rauninni búið að vera allt of lengi í lögum og allt of lengi staðið til að breyta. Það hefur verið, held ég, síðan 2009. Nefndin ítrekar í sínu meirihlutaáliti, eins og fram hefur komið, mikilvægi þess að kláruð verði sú vinna sem þarf til að koma þessu bráðabirgðaákvæði út og koma varanlegu skikki á þetta þannig að öryrkjum verði gert kleift að bæta sinn hag. Þetta skiptir alveg gríðarlega miklu máli, ekki bara í samhengi við tekjur og gjöld ríkisins heldur ekki síður í því samhengi að gera öryrkjum kleift að bæta ekki bara hag sinn og líka að bæta þá sjálfsmynd sem þeir kunna að hafa með því að geta aflað sér tekna og haft sjálfir áhrif á hvernig þeim gengur í daglegu lífi.

Nokkuð hefur verið rætt í þessari umræðu um urðunarskattinn. Mig rennir í grun að fleiri þingmenn kunni að vilja nefna það líka. Mig langar í því sambandi að vísa í grein sem hæstv. umhverfisráðherra skrifaði í Fréttablaðið í júní sl. þar sem ráðherra reifar ágætlega af hverju þetta skipti svona miklu máli. Ég vil í því sambandi minna á að við erum ekki bara að tala um urðunarskatt heldur líka hin svokölluðu F-gös. F-gösin annars vegar og urðun hins vegar standa hvort fyrir sig fyrir 7% af þeirri losun sem Íslendingar og íslensk stjórnvöld eru ábyrg fyrir samkvæmt Parísarsáttmálanum. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli. Ég verð að segja að ef það er einhvers staðar til eitthvað sem væri hægt að kalla valdeflandi gjaldtöku er það einmitt gjaldtaka sem snýr að því að menn geti sjálfir gert eitthvað sem geti orðið til þess að ekki bara þeirra eigin hagur vænkist heldur líka hagur samfélagsins til framtíðar og hagur jarðarinnar til framtíðar. Þetta skiptir verulegu máli.

Eins og kemur fram í nefndarálitinu eru hins vegar óleyst atriði í sambandi við það hvernig við högum urðunarskattinum og því þarf að vinna það nánar með sveitarfélögunum og leggja fram frumvarp sem allra fyrst sem getur tryggt að þessi gjaldtaka hefjist á næsta ári ef þess er nokkur kostur. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess sem m.a. hefur komið fram hjá Sorpu, að það eru einmitt fyrirtækin í landinu sem eru ábyrg fyrir stærstum hluta urðunarinnar. Þess vegna á að vera sérstakur hagur fyrirtækjanna að reyna með öllu móti að draga úr urðun því að urðun er ekki bara umhverfismál heldur líka spurning um sóun. Þetta er spurning um óþarfasóun. Með urðun erum við að henda verðmætum og það getur ekki verið góð nýting á þeim gæðum sem okkur hefur verið trúað fyrir.

Mig langar líka, herra forseti, að nefna aðeins fæðingarorlofið og tryggingagjaldið, breytinguna á því sem verður vegna fæðingarorlofsins og Fæðingarorlofssjóðs. Þetta kann að virðast minni háttar atriði, þarna sé verið að færa til í tryggingagjaldinu, en þetta er býsna mikilvægt vegna þess að þarna er einmitt verið annars vegar að búa í haginn fyrir aðgerð og hins vegar að mæta breytingum þar sem verið er að tryggja að fæðingarorlofið verði fullfjármagnað og að sú hækkun sem hefur orðið á greiðslum í fæðingarorlofi verði fjármögnuð úr sjóðnum. Þetta skiptir verulegu máli. Það sem kemur hins vegar ekki fram en gæti hæglega gerst, ég tala nú ekki um á árinu 2021 eða 2022, er að þegar fæðingarorlofið lengist í 12 mánuði kann að vera í pípunum þörf á enn frekari breytingu á samsetningu gjaldsins vegna þess að væntanlega munu útgjöld vegna fæðingarorlofs aukast enn frekar á árinu 2021 en á árinu 2020. Mér finnst ástæða til að nefna þetta í framhjáhlaupi.

Síðan að lokum aðeins um hvernig skattaland Ísland er, eins og var talað um í umræðunni áðan. Hv. þm. Óli Björn Kárason kom m.a. inn á að Ísland væri háskattaríki. Ég vil biðja hv. þingmenn að muna með mér að það er ekki af neinni tilviljun. Við sem hér búum höfum komið okkur upp því fyrirkomulagi í þessu samfélagi að við notum skatta til að tryggja að hagur íbúanna allra geti verið sem jafnastur, að fólk hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu, aðgang að velferðarkerfi. Þau ríki sem standa sig best á þessum sviðum eru einmitt þau sem einhverjir myndu kalla háskattaríki. En ég held að miklu eðlilegra nafn fyrir slík ríki og slíka tegund af samfélögum sé velferðarríki. Velferðarsamfélög.