150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[16:36]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum, eins og fram hefur komið, tekjubandorminn. Það var kannski aðallega eitt atriði sem mig langaði til að einbeita mér að, í ljósi orða hv. þm. Birgis Þórarinssonar og hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um urðunarskatt. Mig langar aðeins að hnykkja á því að við stöndum á Íslandi eins og í öðrum löndum frammi fyrir fordæmalausri hamfarahlýnun af völdum loftslagsbreytinga. Það er alveg ofur einfalt að segja það en það er erfiðara að framkvæma það en við verðum að geta beitt öllum mögulegum tiltækum ráðum til takast á við þetta risavaxna verkefni. Ein þeirra leiða er einmitt urðunarskattur. Þetta er ekki séríslensk hugmynd. Þetta er leið sem hefur gefist vel víða um heim, sérstaklega í Evrópu. Sem dæmi hafa öll hin Norðurlöndin beitt þessum skatti til að ná árangri þegar kemur að urðun. Þetta er auk þess ein þeirra aðgerða sem kynntar voru í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna loftslagsmála í september 2018. Reyndar er hún í endurskoðun núna vegna þess að við verðum stöðugt að vera á verði og reyna að ná árangri í þessu.

Af hverju er þetta mikilvæg aðgerð? Í fyrsta lagi er það kannski ekki á allra vitorði en við urðun á úrgangi myndast gróðurhúsalofttegundir og þess vegna er urðun alversti kosturinn við meðhöndlun úrgangs, bara algerlega sá alversti. Ekki er nóg með það heldur má segja, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, kollega míns, hér áðan, að 7% af þeirri losun sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda megi rekja til úrgangs. Ef við köfum enn dýpra ofan í það má raunar færa fyrir því rök að frá þeim úrgangi sem fer til urðunar komi 90% gróðurhúsalofttegunda, frá þeim 7%. Þannig að urðun er meiri háttar mál ef við ætlum að stemma stigu við loftslagsvánni. Það er meiri háttar mál að takast á við þetta verkefni. Hins vegar þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur af því að þetta sé einhver skattur sem leggist þannig á fólk að hann auki byrðar þess því að eins og hv. þm. Óli Björn Kárason kom inn á eru það jú með réttu neytendurnir sem hafa það algjörlega í hendi sér hvort þetta valdi auknum álögum eða ekki. Raunar eru það nú helst fyrirtæki sem þurfa að gyrða sig í brók þegar kemur að þessum málum. Neytendur og fyrirtæki hafa það í rauninni í hendi sér að greiða ekki skattinn með því að tryggja að úrganginum sé komið í annars konar farveg en urðun. Eðli skattsins er í rauninni að hann eyðir sér sjálfur. Þetta er ekki eitthvað sem hægt er að reiða sig á til framtíðar.

Svo vil ég minna á það sem fram kemur í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem við erum að ræða hér, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur mikilvægt að samhliða innleiðingu urðunarskatts verði hugað að uppbyggingu innviða til að tryggja að skatturinn skili þeim árangri sem að er stefnt, þ.e. að auka flokkun, endurnýtingu og endurvinnslu úrgangs. Eðlilegt er að tekjur ríkissjóðs af urðunarskattinum verði nýttar, a.m.k. að hluta, til nauðsynlegrar innviðafjárfestingar að þessu leyti.“

Þannig að við horfum fram á bjartari tíma með það að geta staðið okkur betur í þessum málum.

Þá langar mig að geta þess að eins og ég sagði áðan er þetta ekki séríslensk hugmynd. Og ekki nóg með það heldur byggir hugmyndafræðin á bak við urðunarskattinn á grundvallarreglu í alþjóðlegum umhverfisrétti, þ.e. þeir greiða sem menga, stundum kölluð mengunarbótareglan. Það er nefnilega mjög brýnt, ekki bara í ljósi loftslagsbreytinganna heldur líka í ljósi þess hvernig við förum með hlutina, að við byrjum á því að draga úr. Þar sem við getum ekki dregið úr verðum við að reyna að finna allar leiðir til að nýta það aftur með einhverjum hætti. Ef okkur tekst ekki að nýta það aftur þarf alla vega að skila því til endurvinnslu. Dæmi um það er að skila plasti til endurtekinnar plastframleiðslu. Og ef okkur tekst það ekki þarf að endurnýta það með einhverjum hætti og ein leiðin í því, ekki endilega sú besta en ein leið, er að brenna til orkuframleiðslu. Síðasti kosturinn er alltaf sá að urða. Raunar er það svo að það er allt of ódýrt að urða á Íslandi. Aðrar leiðir eru eiginlega ekki samkeppnishæfar í samhenginu.

Ég ítreka að þetta er ein af þeim leiðum sem við eigum að beita til þess að stemma stigu við þeirri fordæmalausu hlýnun sem við stöndum frammi fyrir. Við erum á góðri sporbraut með það og ég hlakka til að sjá þetta mál ná fram að ganga þegar verður búið að vinna betur í því.