150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[16:41]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Það er ekki hægt að ræða þetta mál, tekjuöflun ríkissjóðs, án þess að ræða þá staðreynd að Ísland er orðið háskattaland, skattahæsta ríkið samhliða Svíþjóð í samanburði OECD-ríkjanna. Mér þótti ágætt í andsvörum hér áðan að hv. þm. Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, var sammála mér í þessari greiningu enda er þetta einföld staðreynd. Við þekkjum öll söguna og ástæðurnar fyrir þessu. Við fórum í gegnum fordæmalaust efnahagshrun og í kjölfar þess þurfti að hækka skatta mjög víða til að tryggja tekjustofna ríkissjóðs í mikilli niðursveiflu. Það kom atvinnulífi og heimilum mjög illa á þeim tímapunkti en rökstuðningurinn fyrir þessum miklu skattahækkunum á sínum tíma var jú að þetta væri tímabundið. Skattstofnar ríkisins hefðu dregist svo mjög saman í kreppunni að það væri ekki hjá því komist að hækka skatta svo mikið þó að tímasetningin hefði verið afleit. Einn af þeim grundvallarlærdómum sem við drógum af hagstjórn fyrirhrunsáranna var að það þyrfti að fara varlega með fjármál ríkissjóðs í uppsveiflu til að tryggja að svona hlutir myndu ekki endurtaka sig. En staðreyndin er auðvitað sú að þeir endurtóku sig.

Það sem við gerðum, og er það sem þessi ríkisstjórn ber fyrst og fremst ábyrgð á, hafandi aukið ríkisútgjöld um 200 milljarða á fyrstu tveimur árum sínum eða á þremur árum ef við teljum með árið 2020 með, var að festa þessar skattahækkanir í sessi í stað þess að nýta tækifærið til að lækka skatta eða eiga alla vega fyrir skattalækkunum þegar tæki að hægjast um í hagkerfinu á nýjan leik. Það hefur raunar verið varað við því allan starfstíma þessarar ríkisstjórnar að það myndi hægja á, að efnahagsforsendurnar sem ríkisstjórnin ynni með í sínum fjármálaáætlunum væru allt of bjartsýnar. Hún jók útgjöldin sem þessu nam og festi þar með skattahækkanirnar í sessi. Það er ekkert svigrúm í ríkisfjármálunum núna þegar hagkerfið er að kólna til að lækka skatta, að veita atvinnulífinu það nauðsynlega súrefni sem atvinnulífið þyrfti á að halda núna. Það er því miður helsta afrek þessarar ríkisstjórnar, ef afrek skyldi kalla, og þess vegna munum við búa við það áfram á komandi árum að Ísland verði háskattaríki.

Það má alveg spyrja sig: Hefði ekki verið ráð að sýna meiri ráðdeild í ríkisrekstrinum? Hin eftirmæli ríkisstjórnarinnar eru auðvitað: Hver er hinn sýnilegi árangur af öllum þessum útgjöldum? Við glímum enn við sömu vandamálin í heilbrigðiskerfinu, sömu umkvartanir þegar kemur að kjörum ellilífeyris- og örorkulífeyrisþega, áframhaldandi fjársvelti í opinberum framkvæmdum. Þrátt fyrir að lítillega sé aukið í þær eru þær enn langt undir langtímameðaltali, langt undir þörf og fyrirsjáanlegt að t.d. þær miklu samgönguumbætur sem ráðast á í á höfuðborgarsvæðinu þurfi að fjármagna með viðbótarsköttum af því að það er ekki svigrúm fyrir það í ríkisrekstrinum. Þetta er afleit staða. Þetta er einfaldlega merki um afleita stjórn á fjármálum ríkisins, hin augljósa birtingarmynd óráðsíu ríkisstjórnarinnar í útgjöldum ríkissjóðs. Við fáum örugglega að takast á um það í næstu kosningum. En það er mikil synd að ekki skuli vera svigrúm til skattalækkana. Þó svo að ríkisstjórnin hæli sér af fyrirhuguðum skattalækkunum ársins 2021 í umræðunni um fjárlögin nú þá skulum við spyrja að leikslokum um það hvaða svigrúm hún hafi til slíkra skattalækkana þegar að þeim kemur.

Í breytingartillögum meiri hlutans er fagnaðarefni að fyrirhuguðum urðunarskatti skuli vera frestað. Nú tek ég það skýrt fram að ég er fylgjandi þessari gjaldtöku hreint og klárt. Þetta eru umhverfisgjöld sem við eigum að nýta okkur til að breyta hegðun okkar til að takast á við þann brýna vanda sem loftslagsmálin eru, enginn vafi þar á. En við verðum að vanda undirbúning og það var einfaldlega ekki gert í þessu tilviki. Það voru engin samtöl við sveitarfélögin sem áttu að framkvæma þetta. Það var enginn undirbúningur sem nauðsynlegur er til þess að gjaldið myndi geta virkað sem skyldi. Þess vegna vona ég að stjórnvöld noti tímann fram að næstu fjárlagaumræðu, þegar við fáum væntanlega tillögur um urðunargjald á nýjan leik fyrir þingið, til þess að vanda undirbúning því að þetta er auðvitað mjög mikilvægur þáttur. Umfang urðunar á sorpi hér á landi er hreinlega til skammar. Við erum enn þá langt undir þeim skuldbindingum sem við höfum undirgengist á undangengnum árum og það er mjög mikilvægt að þarna sé tekið á málum af myndarbrag. Ég er sjálfur algerlega sannfærður um að urðunargjald sem þetta er skynsamleg leið til að breyta hegðun bæði heimila og fyrirtækja í þessa veru. En þá þarf líka að huga vel að undirbúningi.

Það leiðir líka hugann að umhverfissköttum, grænum sköttum sem þessum. Við eigum vafalítið eftir að þurfa að grípa til þeirra enn frekar til að takast á við loftslagsvandann. Þar má nefna kolefnisgjöldin sem eru enn, í samanburði við ráðleggingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins t.d., langt undir þeim viðmiðum sem talin eru þurfa til til þess að breyta raunverulega hegðun. Þá verðum við að gæta að því, til þess að skapa ekki einmitt andstöðu við slíka gjaldtöku, að umhverfisgjöld eiga að vera til þess fallin að breyta skattkerfinu en ekki auka skattheimtu, að við lækkum aðra skatta á móti. Það er mjög skynsamlegt að beita skattkerfinu til að breyta neysluvenjum með þessum hætti, að beita skattkerfinu fyrir okkur til að ná fram markmiðum okkar í loftslagsmálum. En það verður þá líka að sýna það í verki, svo að ekki verði um villst, að aðrir skattar séu lækkaðir á móti, að þetta séu eingöngu skattar til að breyta neysluhegðun en ekki skattar til einfaldrar tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Hættan er auðvitað sú að með slíkum brögðum muni ríkisstjórnin einfaldlega grafa undan stuðningi við slíka skattheimtu.

Hugsunin á bak við græna skatta er algerlega rétt. Þetta er í einföldu máli: Þeir borga sem menga. En ríkissjóður á ekki að hagnast á því. Það verður þá að lækka aðra skatta með sýnilegum hætti á móti og væri hægast um vik að lækka önnur gjöld eins og t.d. virðisaukaskatt eða tekjuskatt á móti slíkum skatttekjum. Í grænskattabókhaldi ríkisstjórnarinnar, ef við getum sagt sem svo, hingað til er það því miður svo að nettótekjur ríkisins af þessum gjöldum eru langt umfram þær fjárfestingar eða þau útgjöld sem ríkið stofnar til, m.a. með niðurgreiðslu á eða afslætti af innflutningsgjöldum eða vörugjöldum á vistvænni bifreiðum eða fjárfestingu í innviðum. Þar hallar verulega á. Því miður eru þessir grænu skattar nettótekjuskapandi fyrir ríkissjóð. Ég held að við þurfum að draga línu í sandinn og segja: Þetta má ekki verða. Ef við ætlum að geta beitt þessum gjöldum sem skyldi á komandi árum þannig að okkur takist að standa undir skuldbindingum okkar í loftslagsmálum og við leggjum okkar lóð svo um munar á vogarskálarnar þá verður almenningur að geta gengið að því sem vísu að hér sé ekki um skattahækkanir að ræða heldur eingöngu skattbreytingar. Við ætlum að breyta skattkerfinu til að vinna með okkur í loftslagsmálum en ekki að hækka skatta enn frekar. Nóg er um það fyrir, því miður. Enn og aftur: Þessi ríkisstjórn hefur fest skattahækkanir eftirhrunsáranna í sessi. Það verður ærin vinna að vinda ofan af óráðsíu ríkisstjórnarinnar í meðhöndlun á opinberum fjármunum.