150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[17:06]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem kom kannski ekkert mikið á óvart, hún var svona í takti við það sem heyrst hefur úr horni Miðflokksins. Þrátt fyrir þann ótrúlega árangur sem er að nást í ríkisfjármálunum virðist Miðflokkurinn ekki sjá þann hag.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann hér um er svipað og ég spurði hv. þm. Birgi Þórarinsson að um daginn og lýtur að því hver stefna Miðflokksins sé þegar kemur að umhverfismálum. Ég hef nefnilega heyrt því fleygt héðan úr þessum stól að það kunni að vera að bestu málin sem við gætum unnið að í umhverfismálum séu t.d. að grafa eftir eigin olíu og fleira í þeim dúr. Ég hef bara heyrt gagnrýni úr röðum Miðflokksins þegar kemur að hugmyndum um græna skatta. Hér áðan fór hv. þingmaður yfir að hann teldi það einhverja vinstri stefnu. Ég veit ekki hvort það er vinstri eða hægri en það að þeir borgi sem menga og þeir borgi sem nota finnst mér allt eins geta átt heima hægra megin við miðju og vinstra megin. En spurning mín til hv. þingmanns er: Hver er stefna Miðflokksins þegar kemur að umhverfismálum? Styður Miðflokkurinn að Ísland sé þátttakandi í Parísarsáttmálanum og uppfylli þau skilyrði sem þar eru fram sett?