150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[17:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Menn eru farnir að leggja það í vana sinn að þakka almennt fyrir ræður og andsvör, stundum að tilefnislausu en nú tel ég tilefni til að þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir góða fyrirspurn, þótt hún sé auðvitað að hluta til aðeins utan við efnið, um Parísarsamkomulagið og slíkt, en þó ekki. Í umhverfismálum er gríðarlega mikilvægt, alveg nauðsynlegt, að líta á heildarmyndina og heildaráhrifin af þeim aðgerðum sem menn ráðast í. Það að leggja refsigjöld á almenning fyrir það eitt að vera til og ráðast í neyslustýringu eins og hér er lagt til er ekki besta leiðin til að ná árangri. Hv. þingmaður segist hafa heyrt því fleygt að við tölum fyrir því að bora eftir olíu. Ég er bara undrandi ef það er að koma í ljós að hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins sé andvígur því að Ísland nýti hugsanlegar olíu- og gaslindir sínar. Ég tel reyndar sérstaklega mikilvægt að við nýtum þessar lindir í ljósi þess að ef þarna er um eldsneyti í vinnanlegu magni að ræða er það líklega að mestu leyti gas og fátt hefur skilað meiri árangri í baráttu við losun gróðurhúsalofttegunda en aukin notkun náttúrulegs gass á kostnað kolabruna. Bandaríkin, sem hafa oft og tíðum verið gagnrýnd fyrir að taka ekki nægan þátt í alþjóðasamstarfi í umhverfismálum, hafa til að mynda núna fyrst náð árangri á undanförnum árum, a.m.k. í tíð Obama forseta, með því að stórauka brennslu á náttúrulegu gasi á kostnað kolabruna. Ísland legði mikið af mörkum ef það gæti aukið framboð á náttúrulegu gasi svoleiðis að þær þjóðir sem nú er að stórauka brennslu kola, eins og Kína, og meira að segja Þjóðverjar brenna allt of miklu af kolum, gætu nýtt íslenskt gas í staðinn.